Innlent

Slæmt ástand vega í Reykjavík: Tvöfalt fjármagn þurfi svo ástandið verði ásættanlegt

Sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
Tvöfalda þarf það fjármagn sem árlega er veitt í viðhald gatna á höfuðborgarsvæðinu. Ástand vega í Reykjavík hefur sjaldan verið eins slæmt og því ljóst að það mun taka langan tíma að bæta úr ástandinu.

Þetta kom fram í máli Sigþórs Sigurðssonar, framkvæmdastjóra fyrirtækisins Hlaðbæ-Colas, í Reykjavík síðdegis í gær.

Skortur hefur verið á viðhaldi gatna og djúpar holur í vegum eru að finna víða um borgina. Vegum hefur ekki verið viðhaldið í um sex ár, eða frá því eftir hrun. Ódýrari efni hafa verið notuð til að fylla í hjólför og til að viðhalda slitlagi. Sigþór segir efnin þó öll uppfylla tilsetta staðla.

„Það sem við höfum verið að benda á er að það hefur verið skorið svo heiftarlega niður í viðhaldinu og í raun verið að framkvæma innan við helming þess sem þarf á hverju ári. Það segir sig sjálft að það skilar sér á endanum í ástandi eins og núna,“ segir Sigþór.

Um er að ræða Evrópustaðla en þeir tóku gildi 1. mars 2008, á Íslandi og öðrum aðildarlöndum EES. Vegagerðin gefur út leiðbeiningar um efnisgæði og efnisrannsóknir í vegagerð sem taka mið af og uppfylla Evrópustaðlana að mestu, að því er fram kemur á vef Alþingis.

Borgaryfirvöld hækkuðu fjárframlög til viðhalds gatna um hundrað milljónir á þessu ári. Sigþór segir það ekki duga, en tekur fram að verð á malbiki sé nú lægra en áður vegna lækkunar á heimsmarkaði.

„Ég veit að í fyrra voru Vegagerðin og Reykjavíkurborg saman með 600-700 milljónir en ég myndi halda að það þyrfti að fara vel yfir milljarðinn í ár, svona til að ná yfir það versta, og halda því í kannski 2-3 ár til að vinna upp stöðuna þannig að ástandið verði aftur eins og rétt fyrir hrun,“ segir hann.

„Maður vonar að þeir hjá Vegagerðinni og Reykjavíkurborg verði með hressileg útboð í vor með miklu magni til að byrja að vinda ofan af þessu ástandi sem er núna,“ bætti hann við en hlusta má á viðtalið við hann í spilaranum hér fyrir ofan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×