Innlent

Slæmt að yfirmenn standi í útskipun

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Síðustu misseri hefur verið hart deilt um heimildir álversins í Straumsvík til að nýta sér þjónustu verktaka.
Síðustu misseri hefur verið hart deilt um heimildir álversins í Straumsvík til að nýta sér þjónustu verktaka. Vísir/Anton Brink
„Þeir hafa mikilvægum skyldum að sinna annars staðar í verksmiðjunni sem er ekki sinnt á meðan. Það er vissulega mjög slæmt,“ segir Ólafur Teitur Guðnason, upplýsingafulltrúi Rio Tinto Alcan á Íslandi, um yfirmenn álversins í Straumsvík sem hafa gengið í störf hafnarverkamanna fyrirtækisins undanfarið og sinnt útskipun á meðan á verkfalli stendur.

Ólafur Teitur Guðnason, upplýsingafulltrúi Rio Tinto Alcan á Íslandi
Útflutningsbann hefur nú staðið yfir í um þrjár vikur en sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu úrskurðaði að nítján yfirmenn megi ganga í störf hafnarstarfsmanna. „Það má segja að þau hafi náð tökum á að koma þessu um borð. En samt sem áður eru ekki allir farmar að fara sem áttu að fara og það hefur þurft að skilja eftir,“ sagði Kolbeinn Gunnarsson, formaður verkalýðsfélagsins Hlífar, við fréttastofu í gær.

„Það má ekki gleyma tjóninu sem þetta veldur í okkar viðskiptasamböndum. Við erum að framleiða sérsniðna vöru handa viðskiptavinum sem treysta á að fá hana. Það er aðeins farið að bera á að þeir segi upp pöntunum því þeir treysta ekki á að þeir fái málminn,“ segir Ólafur.

Þá segir Ólafur ekkert að frétta af samningaviðræðum. „Að óbreyttu lítur út fyrir að þetta haldi áfram, því miður.“ Kjaradeilan hefur nú staðið yfir í rúmt ár.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×