Innlent

Sláandi tölur í nýrri skýrslu UNICEF um hversu mörg börn líða skort á Íslandi

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Ný skýrsla UNICEF á Íslandi um efnislegan skort barna á Íslandi var kynnt í dag. Niðurstöðurnar eru vægast sagt sláandi en rannsókn sem gerð var hér á landi árið 2014 leiðir í ljós að alls 9,1 prósent barna á Íslandi líða efnislegan skort. Hefur fjöldinn tvöfaldast frá árinu 2009 en þá var sams konar rannsókn gerð á vegum UNICEF. Þá liðu 4 prósent barna á Íslandi efnislegan skort.

Börn teljast líða skort ef þau skortir tvennt eða fleira af því sem spurt er í um í lífskjararannsókn Evrópusambandsins en svör við spurningum úr þeirri rannsókn eru flokkuð með skortgreiningu UNICEF eftir sjö sviðum: næring, menntun, klæðnaður, upplýsingar, húsnæði, afþreying og félagslíf. Aldursbil greiningar UNICEF nær yfir börn á aldrinum 1 árs til 15 ára.

Þröngbýli oftast ástæða þess að börn líða skort hvað varðar húsnæði

Börn á Íslandi liðu helst skort árið 2014 hvað varðar húsnæði og félagslíf. 13,4 prósent barna liðu skort hvað varðar húsnæði en árið 2009 var hlutfallið 8,9 prósent. Sé hlutfallið nú yfirfært á heildarfjölda barna á Íslandi má gera ráð fyrir að 9000 börn líði skort á sviði húsnæðis en þröngbýli er oftast ástæða þess að barn telst líða skort á þessu sviði.

Hvað varðar félagslíf sýna niðurstöðurnar að 5,1 prósent barna líða skort hvað varðar þennan þátt. Hefur hlutfallið aukist um 3 prósentustig frá árinu 2009 þegar 2,1 prósent íslenskra barna liðu skort á sviði félagslífs.

Sé hlutfallið nú svo yfirfært á heildarfjölda barna á Íslandi má gera ráð fyrir að 3400 börn líði skort hvað varðar félagslíf en algengasta ástæðan er sú að barnið getur ekki boðið vinum síum heim til að borða eða leika við.

Eiga ekki tvenn pör af skóm sem passa

Þá líða litlu færri börn skort hvað varðar klæðnað en félagslíf. Algengasta orsökin þar er sú að barnið á ekki tvenn pör af skóm sem passa. Að sama skapi líða um 3200 börn skort hvað varðar afþreyingu. Þau eiga þá til dæmis ekki leikföng, leiktæki eða íþróttabúnað til að vera með utandyra og/eða ekki bækur sem henta aldri.

Eins og fram hefur komið er talað um að börn búi við skort ef það skortir tvennt eða fleira af lista lífskjararannsóknar ESB. Þá er talað um að börn búi við verulegan skort ef þau skortir þrennt eða fleira af listanum.

Gera má ráð fyrir að 6100 börn líði skort

Rannsókn UNICEF nú leiðir í ljós að fjöldi þeirra barna sem líða verulegan skort hér á landi hefur nær þrefaldast frá árinu 2009 eða alls 2,4 prósent barna. Þá er það einnig svo að árið 2009 skorti ekkert barn meira en fjögur atriði af lista lífskjararannsóknarinnar en árið 2014 var staðan önnur þar sem dæmi voru um að börn skorti allt að sjö atriði á listanum. Alls var um 0,2 prósent barna að ræða.

Séu þessar tölur yfirfærðar á fjölda barna á Íslandi má gera ráð fyrir að 6100 börn líði skort hér á landi og að af þeim líði 1586 börn verulegan skort.

Skýrslu UNICEF má sjá í heild sinni hér og í spilaranum hér að ofan má sjá myndband frá UNICEF um niðurstöður skýrslunnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×