Innlent

Sláandi Neyðar­línu­sím­tal spilað við réttar­höldin: „Þú verður bara að vaða í þetta og ekkert kjaft­æði“

Birgir Olgeirsson skrifar
Khaled hefur setið í gæsluvarðhaldi síðan hann var handtekinn í september. Hér mætir hann í dómsal í morgun.
Khaled hefur setið í gæsluvarðhaldi síðan hann var handtekinn í september. Hér mætir hann í dómsal í morgun. Vísir/Rakel
Kolbrún Benediktsdóttir varahéraðssaksóknari spilaði upptöku úr símtali sem meðleigjandi Sanitu Brauna átti við lögregluna kvöldið sem hún dó. Þar mátti heyra Sanitu hrópa angistaróp eftir hjálp á meðan gengið var í skrokk á henni. 

Meðleigjandinn hringdi í Neyðarlínuna og fékk í framhaldinu samband við lögreglumann.

„Það er heimilisofbeldi í gangi. Það er verið að lemja konu. Ég er inni, ég þori ekki fram. Það er brjálaður maður hérna inni,” heyrist meðleigjandi Sanitu segja og má heyra hana öskra hástöfum á bak við: „Please help!”

„Það er brjálaður maður hérna inni,” segir meðleigjandinn. „Bara aðstoð sem fyrst,” bætir hann við.

Hvatti meðleigjandann til dáða

Lögreglumaðurinn spyr meðleigjandann hvernig lögreglan eigi að komast inn. Hann svarar að ef lögreglumaðurinn hringi öllum dyrabjöllum þá muni einhver hleypa þeim inn. 

Lögreglumaðurinn heyrist segja við meðleigjandann að hann sé ekki að fara að biðja hann um að gera eitthvað sem hann þori ekki að gera. 

„Ég held að hann sé að reyna að drepa hana,” heyrist meðleigjandinn segja. Lögreglumaðurinn spyr hann frekar út í það og þá svarar meðleigjandinn:

„Hann er að segja þú verður að deyja. Hann er að reyna að kæfa hana.” 

Lögreglumaðurinn hvetur þá meðleigjandann til dáða en inn á milli mátti heyra í Sanitu hrópa á hjálp.



Blóð úti um allt

„Þú verður bara að vaða í þetta og ekkert kjaftæði. Ef hann er að kæfa hana, þá verður þú að vaða í þetta,” segir lögreglumaðurinn. 

Lögreglumaðurinn bað því næst meðleigjandann að hafa símann á sér þegar hann færi fram. Þegar þangað var komið mátti heyra meðleigjandann spyrja hvað sé í gangi.

Önnur mannrödd heyrist segja „Fuck You” og „Call Police” og meðleigjandinn segir við lögreglumanninn:

„Hann er að lemja hana með slökkvitæki. Það er blóð úti um allt.” 

Lögreglumaðurinn kallar þá út  sjúkrabíl í forgangi en þar með endaði upptakan sem var spiluð í réttarsal.  

Lokað var fyrir ummæli við fréttina.




Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×