Innlent

Sláandi margir deyja fyrir aldur fram

Svavar Hávarðsson skrifar
vísir/heiða helgadóttir
Af þeim Íslendingum, á aldrinum 15 til 64 ára, sem dáið hafa fyrir aldur fram á síðustu fimmtán árum hafa tæplega 30 prósent leitað sér lækninga á Sjúkrahúsinu Vogi á einhverjum tímapunkti. Í sumum aldurshópum er hlutfallið mun hærra, og allt upp í 40 prósent hjá aldurshópnum 25 til 34 ára.

Þetta kemur fram í nýútgefnu ársriti meðferðarsviðs SÁÁ 2016. Ein af grunnniðurstöðum höfundarins, Þórarins Tyrfingssonar, forstjóra Sjúkrahússins Vogs, er að ef litið er til þess hversu margir greinast áfengis- og vímuefnasjúkir, og hversu alvarlegur og afdrifaríkur sjúkdómurinn er, megi fullyrða að hann sé sá alvarlegasti sem Íslendingar glíma við um þessar mundir.

Þórarinn Tyrfingssonvísir/gva
Þórarinn segir að í gagnagrunni SÁÁ séu um 18.000 lifandi einstaklingar á aldrinum 15 til 65 ára en á þessu aldursbili eru 200.000 manns. Tölurnar sýni að 10,4 prósent núlifandi karla 15-64 ára og 4,6 prósent núlifandi kvenna á sama aldri á Íslandi hafa farið í áfengis- og vímuefnameðferð til SÁÁ. Þetta fólk er mjög veikt, því samkvæmt nýrri rannsókn uppfylltu um 95 prósent sjúklinganna sem voru á Vogi árið 2015 sex eða fleiri viðmiðunareinkenni sem stuðst er við, og voru því með sjúkdóminn á alvarlegasta stigi.

Þórarinn segir það athyglisvert í þessu samhengi, að bera saman það fjármagn sem rennur til starfsins á Vogi og heildarfjárframlög til heilbrigðismála – en til reksturs á Vogi renna um 500 milljónir frá ríkinu.

„Það fer nú ekki hjá því að á menn renni tvær grímur, eins og sagt er, þegar þeir sjá þessar tölur. Það hefur ekki verið litið svo á að þessi hópur okkar á Vogi sé forgangshópur í þessu tilliti. Menn vilja frekar líta, eins og eðlilegt er kannski, til annarra hópa. En þetta eru virkilega sláandi tölur,“ segir Þórarinn sem skrifar á einum stað að mjög áríðandi sé að „beina miklu meiri fjármunum í Sjúkrahúsið Vog. Það hlýtur að vera eitt af meginmarkmiðum íslenskrar heilbrigðisþjónustu að koma í veg fyrir ótímabær dauðsföll fyrir 64 ára aldurinn og þá tekur þetta af öll tvímæli um að meiri fjármunir eiga að renna til Vogs.“

Tölurnar tala sínu máli. Af þeim 4.650 Íslendingum sem dóu á aldursbilinu 15 til 64 ára á árunum 2001 til 2015 höfðu 1.225 dvalið á Vogi. Þessar rauntölur sýna líka að úr sjúklingahópi SÁÁ hafa frá 2000 til 2015 aldrei færri dáið ótímabærum dauða en rúmlega 50 manns og flest ár 60 til rúmlega 80 manns.

Við þetta má bæta, og er ekki að finna innan tölfræði SÁÁ, að algengasta dánarorsök þeirra sem eru yngri en 25 ára er áfengisneysla, beint eða óbeint. Það unga fólk sem þannig lætur lífið er þó fráleitt allt áfengis- og vímuefnasjúklingar. Sama er að segja um aðra aldurshópa þar sem ástæða ótímabærs dauðsfalls tengist áfengis- eða vímuefnaneyslu; hóps sem hefur þó aldrei leitað sér lækninga á Vogi.

þegar þessi dauðsföll eru talin saman verður ekkert fullyrt um dánarmein, enda hefur það ekki verið rannsakað hérlendis. Undirstofnanir Sameinuðu þjóðanna og Evrópubandalagsins sem taka slíkar tölur saman mæla með því að þegar þessi dauðsföll eru talin saman skuli taka saman dauðsföll sem verða vegna yfirskammta vímuefna, slysa og sjálfsvíga sem rekja megi til vímuefnaneyslu þess sem deyr. Einnig vilja þessar stofnanir að talin séu dauðsföll af völdum sýkinga eða líkamlegra fylgikvilla sem sannanlega urðu vegna vímuefnaneyslunnar.

Hér á Íslandi hefur ekki verið reynt að taka þessar tölur saman og oftast látið nægja að telja þá sem deyja vegna yfirskammta af áfengi eða lyfjum.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×