Bílar

Skynsamlegur smábílakostur

Finnur Thorlacius skrifar
Reynsluakstur - Skoda Fabia

Stutt er síðan Skoda Fabia kom til landsins af þriðju kynslóð en sú fyrsta sá dagsljósið árið 1999. Skoda Fabia er næstminnsti bíll Skoda, stærri en Citygo en minni en Rapid. Skoda Fabia er einskonar systurbíll Volkswagen Polo og eiga þeir margt sameiginlegt þó ekki sé hægt að segja að ytra útlit þeirra sé sláandi líkt.

Báðir eru þeir smíðaðir á MQB undirvagninum sem notaður er undir svo marga bíla hinnar stóru Volkswagen bílafjölskyldu. Ný kynslóð Fabia hefur tekið heilmiklum breytingum. Fyrir það fyrsta er hann orðinn talsvert fallegri, en hann hefur einnig lést um 65 kíló, breikkað um 9 cm, styst um 0,8 cm og lækkað um 3 cm. Að þessu leiti má segja að þessi nýja kynslóð sé afturhvarf til fyrstu kynslóðar bílsins.

Innanrými hans hefur stækkað nokkuð og er það vel fyrir fremur smáan bíl. Skoda Fabia af þriðju kynslóð hefur þegar unnið til verðlauna og hlaut titlana „Overall winner“ og „Best small car“ hjá What Car? bílablaðinu. Við reynsluakstur á bílnum kemur þar greinarritara ekki svo mikið á óvart, hér fer ferlega góður smábíll með frábæra vél og skiptingu og aksturseiginleikar hans eru til fyrirmyndar.

Margar útfærslur

Skoda Fabia er hægt að fá í margskonar útfærslum, í fyrsta lagi sem stallbakur eða langbakur, með þrennskonar vélarkostum og þrennskonar útfærslu innréttingar sem innihalda ýmsan aukabúnað eftir því sem dýrari kostir eru valdir. Ekki munar miklu á verði stallbaksins og langbaksins og með þeim síðarnefnda er kominn bíll fullfær í lengri ferðalög. Þarna munar á bilinu 140 til 190 þúsund krónum, efti öðrum útfærslum.

Aflminnsta vélin í bílnum er 75 hestafla og 1,0 lítra vél. Síðan má fá bæði 90 og 110 hestafla útfærslu frábærrar 1,2 lítra TSI vélar. Þarna munar þó talsvert miklu í verði og frá 75 hestafla bílnum með ódýrustu innréttingunni og til 90 hestafla bílsins með næstbestu innréttingunni er hálfrar milljón króna munur, eða frá 2.290.000 til 2.790.000 kr. Ef valinn er 110 hestafla vélin og besta innréttingin er verðið komið í 3.490.000 kr.

Frábær TSI vél

Bílnum sem reynsluekið var var með 110 hestafla TSI vélinni, forþjöppudrifinni, sem tengd er við DSG sjálfskiptingu. Þessi vél er alveg stórskemmtileg og drífur bílinn áfram með stæl. Snerpan er fyrir vikið eitthvað til að gleðjast yfir og það eykur mjög akstursánægjuna. Uppgefin hröðun bílsins með þessari vél er 9,1 sekúnda í hundrað kílómetra hraða.

Ekki sakaði að vélin er tengd frábærri DSG skiptingu sem finna má í svo mörgum bílum stóru Volkswagen bílafjölskyldunnar. Með henni nýtir hún allt afl vélarinnar hverju sinni og virðist alltaf í réttum gír. Aksturseiginleikar þessa bíls er með því allra besta sem finnst í þessum flokki bíla, jafnvel á toppnum hvað það varðar. Svo virðist sem Skoda hafi heppnast mjög vel með uppsetningu fjöðrunar bílsins og því er mjög gaman að henda honum gegnum beygjurnar og ekki gætir mikils hliðarhalla við það.

Sniðugar lausnir í innréttingunni

Ekki er hægt að kvarta yfir innanrými Fabia þó þar ríki enginn lúxus. Vart er hægt að gera meiri kröfur fyrir svo ódýran bíl, en tiltölulega ódýrt plast er áberandi í innréttingunni. Innanrýmið hefur stækkað örlítið þrátt fyrir að bíllinn hafi styst að ytra máli um 8 millimetra. Olnbogarými, fótarými bæði framí og afturí hefur stækkað og skottið hefur einnig stækkað og er það stærsta í þessum flokki bíla, eða 330 lítrar, 15 lítrum meira en í fyrri kynslóð.

Eins og í öllum öðrum bílum Skoda eru skemmtilegar lausnir að finna víða í innréttingunni. Færa má skottspjaldið í tvær mismunandi hæðir, krókar fyrir innkaupapoka, gleraugnahulstur frammí, snjóskafa í skottlokinu, geymsluhólf undir framsætum, hliðarnetvasar á framsætunum fyrir t.d. farsímann og ruslbakki í framhurðum eru skemmtileg dæmi um úthugsaðar lausnir sem finna má í þessum bíl. Þarna gerir Skoda betur en allir aðrir bílaframleiðendur.

Eins og áður segir kostar Fabia frá 2.290.000 kr. en reynsluakstursbílinn kostar 3.190.000 kr. Til að nefna nokkra samkeppnisbíla kostar Volkswagen Polo frá 2.310.000 kr., Ford Fiesta frá 2.390.000 kr. og Opel Corsa frá 2.490.000 kr. Fabia er ódýrastur þessara bíla, en verðið hækkar bratt með öflugri vélarkostum og betri innréttingum.

Kostir: 1,2TSI vélin, akstuseiginleikar, sniðugar innanrýmislausnir

Ókostir: Efnisnotkun í innréttingu, hátt verð á dýrustu útfærslu

1,2 l. bensínvél, 110 hestöfl

Framhjóladrif

Eyðsla: 4,8 l./100 km í bl. akstri

Mengun: 108 g/km CO2

Hröðun: 9,1 sek.

Hámarkshraði: 196 km/klst

Verð frá: 2.290.000 kr.

Umboð: Hekla




Fleiri fréttir

Sjá meira


×