Innlent

Skyndilega stóð risastór maður fyrir framan Diljá: „Is your name Díltja?“

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Diljá Ámundadóttir.
Diljá Ámundadóttir.
„Það er til svo gott fólk í þessum blessaða heimi,“ segir Diljá Ámundadóttir stödd í stórborginni New York og eigandi peningaveskis. Litlu mátti muna að peningaveskið væri farið á brott og í höndum einhvers annars en risavaxinn engill kom í veg fyrir það.

Diljá, sem er stödd í sumarfríi vestanhafs, greindi vinum og fylgjendum sínum á Facebook frá skemmtilegum endi á ferð hennar um New York á sunnudaginn. Eðli málsins samkvæmt sat hún stóran hluta ferðalagsins í neðanjarðarlest þar sem flakkað var á milli Upper East, Brooklyn, upp til Harlmen og Chelsea með viðkomu á Grand Central.

Kom varla upp orði

„Í einni af þessum neðanjarðarlestarferðum þurfti ég að bíða í nokkra stund á pallinum og var eitthvað að vesenast með dótið mitt,“ segir Diljá. Hún hafi farið inn í einn vagninn, horft út í loftið og „sónað út“.

„Allt í einu stóð risastór og mikill svartur maður fyrir framan mig og spurði mig "Is your name Díltja?" - ég hváði og svaraði undrandi játandi. Þá dró hann peningaveskið mitt uppúr vasanum og lét mig fá það.“

Maðurinn tjáði Diljá að hann hefði leitað að henni í lestinni og væri ánægður með að hafa fundið hana.

„Mér brá svo að ég náði varla að koma upp orði. Enda vissi ég ekki að veskið væri týnt fyrr en hann rétti mér það. Það var talsvert magn af dollurum og nokkur kreditkort í því. Allt á sínum stað.“

God is great

Tveir hjólabrettakappar á táningsaldri sátu Diljá við hlið, tóku af sér stóru heyrnartólin og sögðu við hana:

„God is great. God is great!“

Á móti Diljá sat maður á hennar aldri og taldi líkurnar á að svona gerðist í New York litlar sem engar.

„Ég held að hann hafi rétt fyrir sér.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×