Viðskipti innlent

Skutla matvörunum upp að dyrum

Sæunn Gísladóttir skrifar
Sigurður og Haukur ásamt Vilhjálmi Einarssyni.
Sigurður og Haukur ásamt Vilhjálmi Einarssyni. Vísir/GVA
„Ég myndi segja að við séum búnir að fá fínt hlutfall af viðskiptum en enn þá meiri forvitni,“ segir Sigurður Pálmi Sigurbjörnsson. Sigurður ásamt Hauki Hrafni Þorsteinssyni er eigandi Boxins.is, vefverslunar sem var opnuð um síðustu helgi.

Boxið.is selur þurrvörur, gos, þvottaefni og aðrar nauðsynjar og sendir þær upp að dyrum. „Verðið er mjög samkeppnishæft, þetta eru alls ekki dýrustu vörurnar á markaði,“ segir Sigurður. Greitt er sendingargjald fyrir innkaup undir 10 þúsund krónum, annars er heim­sendingin ókeypis.

„Hugmyndin spratt upp frá því að ég bjó í Bandaríkjunum og nýtti mér það mikið að fá heimsendingu, bæði  á matvörum og mat af veitingastöðum. Mér þótti og þykir enn ofboðslega leiðinlegt að kaupa ýmsar nauðsynjavörur, sérstaklega þungar matvörur, í búð og svo á maður það til að gleyma að kaupa nauðsynjar eins og þvottaefni,“ segir Sigurður. „Haukur er hugbúnaðarverkfræðingur og við höfum oft verið að tala um þetta. Hann er fjölskyldumaður og  sagði að það að sleppa við að fara í búðina með börn í för væru svo mikil lífsgæði.“

Að mati Sigurðar eru Íslendingar hægt og rólega að venjast því að versla á netinu. Sigurður segir að margir forðist netkaup vegna óvissu um hvenær varan kemur. „Við erum að bjóða upp á að þú veljir afhendingarhólf, þú getur pantað í hádeginu og sagst vilja vörurnar milli sex og átta, það hjálpar kannski fólki að komast yfir þennan þröskuld að eyða óvissunni um hvenær þetta kemur.

Boxið.is er nú með þúsund vörunúmer en einungis Sigurð og frænda hans að störfum. Hann býst svo við að ráða fleiri með aukinni eftirspurn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×