Tónlist

Skunk Anansie íhugar tuttugu ára afmælistónleika á Íslandi eftir bón frá aðdáanda

Anton Egilsson skrifar
Anna Margrét Káradóttir var himinlifandi með skilboðin frá Skin, söngkonu Skunk Anansie.
Anna Margrét Káradóttir var himinlifandi með skilboðin frá Skin, söngkonu Skunk Anansie. Mynd/Getty/Ingibjörg Torfadóttir
Það gæti farið svo að breska hljómsveitin Skunk Anansie sé á leið hingað til lands og það fyrir tilstilli mikils aðdáenda sveitarinnar hér á landi. Leikkonan Anna Margrét Káradóttir greindi frá því í færslu á Facebook síðu sinni í dag að hún hafi borið upp þá hugmynd við hljómsveitina að koma hingað til lands á næsta ári en þá séu 20 ár liðin síðan hún tróð hér upp seinast.

Svar barst við fyrirspurn hennar og það frá sjálfri söngkonu sveitarinnar, Skin.  Leist henni afbragðs vel á hugmynd Önnu Margrétar.

Leitaði Anna Margrét með færslunni sem hún birti á Facebook eftir viðbrögðum fólks við því hvort að það myndi mæta á tónleikana. Viðbrögðin stóðu ekki á sér en þegar þessi frétt er skrifuð hafa yfir þréttan hundruð manns líkað við færsluna.





Skilaboðin sem Anna Margrét fékk frá söngkonunni Skin.Mynd: Anna Margrét Káradóttir
Hafði samband í flippi

„Ég er eiginlega vandræða mikill fan. Ég var þrettan ára þegar ég fór á tónleikana með þeim þegar þau voru hérna seinast.“ Sagði Anna Margrét í samtali við fréttastofu í kvöld.

Hún segist hafa sent skilaboðin í góðu flippi fyrir tveimur mánuðum síðan en þau sendi hún á hljómsveitina í gegnum Facebook síðu þeirra. Svarið sem hún óskaði svo innilega eftir barst henni svo loks í gær.

„Þetta er frábær hugmynd, ég ætla að láta hljómsveitina vita af þessu“ segir í skilaboðunum sem söngkonan Skin skrifaði til Önnu Margrétar.

Tónleikahaldarar hafa haft samband

Í Facebook færslu sinni óskaði Anna Margrét einnig eftir viðbrögðum tónleikarahaldara vegna mögulegrar heimsóknar Skunk Anansie. En hefur einhver haft samband og lýst yfir áhuga á að hýsa tónleikana ?

„Já, það eru nefnilega nokkrir búnir að hafa samband“ segir Anna Margrét en gefur þó ekkert upp um hverjir það eru. 

Það verður því gaman að fylgjast með hvort þessi draumur Önnu Margrétar um að hljómsveitin Skunk Anansie stígi á stokk hér á landi eftir 20 ára fjarveru verði að veruleika.

Facebook færslu Önnu Margrétar má sjá hér að neðan.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×