Íslenski boltinn

Skúli: Ef þetta er of mikið þá getur hann ekki dæmt í efstu deild

Smári Jökull Jónsson á Valsvellinum. skrifar
Skúli Jón á ferðinni í kvöld.
Skúli Jón á ferðinni í kvöld. vísir/hanna
Skúli Jón Friðgeirsson í liði KR fékk sitt annað gula spjald á 65.mínútu í leiknum gegn Val. Staðan var þá 0-0. Hann var afar ósáttur þegar hann gekk af velli og var það enn þegar Vísir náði tali af honum að leik loknum.

„Kristinn Freyr og Gunni (Gunnar Þór) eru að berjast um boltann og ég hleyp til Guðmundar Ársæls af því að mér finnst hann vera að halda honum. Ég sagði orðrétt við hann „hann má ekki halda honum þó hann sé í sókn“. Ekkert annað, ekkert blótsyrði eða neitt,“ sagði Skúli Jón.

„Í fyrsta lagi þá veit Guðmundur Ársæll ekki að ég er á spjaldi. Hann er að spjalda mig og svo er hann byrjaður að labba í burtu. Það er ekki fyrr en Valsararnir segja honum að ég sé með spjald sem hann snýr sér við,“ bætir Skúli við.

Brottvísunin hafði mikil áhrif á leikinn og aðeins átta mínútum síðar komust Valsmenn svo yfir.

„Hann verður að eiga þetta við sjálfan sig. Ef honum finnst þetta of mikið þá finnst mér hann ekki geta dæmt í efstu deild,“ sagði Skúli að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×