Viðskipti innlent

Skuldir sveitarfélaga hækka milli ára

sæunn gísladóttir skrifar
Reykjanesbær er það sveitarfélag sem er með hæstu skuld á íbúa af stærstu fimm sveitarfélögunum.
Reykjanesbær er það sveitarfélag sem er með hæstu skuld á íbúa af stærstu fimm sveitarfélögunum.
Skuldir fimm stærstu sveitarfélaga landsins (A og B hluta) fóru vaxandi milli ára og námu rúmlega fjögur hundruð og fimmtíu milljörðum króna í lok árs 2015. Reykjavíkurborg skuldar tvo þriðju upphæðarinnar, eða 301,6 milljarða króna. Skuldirnar hækkuðu um tæplega tuttugu milljarða milli ára. Skuldahlutfall sveitarfélaganna, skuldir deilt með rekstrartekjum, drógust þó saman í öllum sveitarfélögunum.

Halldór Halldórsson, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, segir skuldastöðuna vera áhyggjuefni.

Halldór Halldórsson, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, segir sveitarfélögin almennt var að vinna í skuldastöðu sinni.Fréttablaðið/Daníel
„Okkar niðurstaða var sú að sveitarfélög eru að vinna í skuldastöðum sínum, en það eru undantekningar og það er auðvitað áhyggjuefni,“ segir Halldór. Hann bendir á að Reykjavíkurborg eigi stóran hluta á hækkun skulda milli ára, en skuldir Reykjavíkurborgar hækkuðu um fjórtán milljarða. „Spár fyrir 2016 eru samt mun bjartsýnni en útkoman árið 2015, það er okkar niðurstaða að þetta fari batnandi,“ segir Halldór.

Skuldir á hvern íbúa námu í árslok á bilinu 1,23 milljónir til 2,86 milljónir króna. Skuldir á íbúa voru lægstar í Kópavogi en hæstar í Reykjanesbæ. Skuldir á íbúa jukust í Reykjavík, á Akureyri og í Reykjanesbæ.

Rekstrarniðurstaða versnaði hjá Hafnarfirði, Kópavogi og Reykjavík milli ára, en batnaði hjá Reykjanesbæ og Akureyrarbæ.

Reykjavík er það sveitarfélag sem á mest eigið fé, eða sem nemur 224 milljörðum króna. Eigið fé er minnst hjá Reykjanesbæ og nemur 6,5 milljörðum króna. Eigið fé dróst saman hjá öllum sveitarfélögum nema Akureyri og Reykjavík milli ára.

Heildareignir eru langmestar hjá Reykjavíkurborg. Heildareignir jukust hjá öllum sveitarfélögum nema Kópavogi þar sem þær drógust saman um 100 milljónir króna milli ára.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu 2. maí.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×