Innlent

Skuldastaðan batnar en breikka þarf tekjustofnana

Kolbeinn Óttarsson Proppé skrifar
Öll sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu greiða um og yfir helming allra tekna sinn í launakostnað.
Öll sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu greiða um og yfir helming allra tekna sinn í launakostnað. vísir/stefán
Fjárhagsstaða sveitarfélaganna hefur batnað frá því eftir hrun, en enn eru mörg þeirra mjög skuldug. Fimm í hópi tólf stærstu sveitarfélaganna skulda meira en milljón á hvern íbúa. Er þá aðeins miðað við A-hlutann, en fyrirtæki þeirra eru ekki tekin með í reikninginn.

Þetta kemur fram í ársreikningum fyrir árið 2014. Innanríkisráðuneytið gefur út heildaryfirlit yfir stöðu sveitarfélaganna árlega, en þar sem niðurstaða ársins 2014 er ekki komin settist Fréttablaðið yfir ársreikninga stærstu sveitarfélaganna og skoðaði stöðuna. Ársreikningur sveitarfélagsins Árborgar liggur ekki fyrir.

Hæstar eru skuldir miðað við hvern íbúa í Fjarðabyggð, eða tæpar 1,8 milljónir, þá eru þær tæpar 1,6 milljónir í Reykjanesbæ, tæpar 1,2 í Hafnarfirði og rúm milljón á hvern íbúa í Mosfellsbæ og Kópavogi.

Þá eru sveitarfélögin mjög misvel stödd þegar kemur að eigin fé. Það er neikvætt í Fjarðabyggð og aðeins rúmir 2 milljarðar í Reykjanesbæ. Hæst er það í Reykjavík, eða 87,6 milljarðar.

Launakostnaður er langstærsti útgjaldaliður sveitarfélaganna og í ársreikningunum kemur fram að um önnur hver króna sem sveitarfélögin fá í tekjur fer í laun. Hæst er það hlutfall í Fjarðabyggð og á Akureyri þar sem það nálgast 60%.

Halldór Halldórsson
Halldór Halldórsson, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, segir löngu tímabært að endurskoða tekjustofna sveitarfélaganna.

„Útsvarið er aðaltekjustofninn, reyndar mjög mikilvægur tekjustofn, en það eru ákveðnir ókostir við það. Gott dæmi um það er ferðaþjónustan, þar sem útsvarið ferðast ekki með þeim sem fara í árstíðabundin störf í ferðaþjónustunni. Víða um land er aðeins ferðaþjónusta yfir sumarið og þarf að bæta við starfsfólki sem flest á lögheimili á höfuðborgarsvæðinu eða í útlöndum. Við myndum vilja fá hlutdeild í virðisaukaskatti og umferðarsköttum.“

Halldór segir ríkið hafa gefið ádrátt um að ræða það í nýlegri yfirlýsingu tengdri kjarasamningum sem gefin var fyrir helgi.

„Þar er rætt um að vera í samstarfi við sveitarfélögin, lækka tekjuskatt og ræða við okkur um útsvarið,“ segir Halldór, sem segir fjármálaráðherra hafa tekið vel í slíkar umræður á fundum tengdum kjarasamningunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×