Erlent

Skuggalegir valkostir barnanna í Mosúl

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Flóttafólk frá Mosúl snýr aftur til heimkynna sinna í austurhluta borgarinnar.
Flóttafólk frá Mosúl snýr aftur til heimkynna sinna í austurhluta borgarinnar. vísir/afp
Fimmtán vikur eru liðnar frá því Íraksher hóf sókn sína gegn liðsmönnum Íslamska ríkisins í Mosúl, með liðsinni kúrda og vopnasveita sjía-múslima.

Árangurinn til þessa er að austurhluti borgarinnar, austan árinnar Tígris, er að mestu á valdi stjórnarhersins.

Þessa dagana er herinn að hefja sókn sína inn í vesturhluta borgarinnar, en þar búa um 700 þúsund manns og ríflega helmingur þeirra er á barnsaldri.

Sameinuðu þjóðirnar segja almenna borgara vera í mikilli hættu.

Samtökin Barnaheill vara við því að börnin í Mosúl verði sérlega illa úti í átökum næstu daga og vikur.

„Þetta eru skuggalegir valkostir sem börnin í vesturhluta Mosúl standa nú frammi fyrir; sprengjur, skotbardagar og hungur ef þau halda kyrru fyrir, en aftökur og leyniskyttur ef þau reyna að flýja,“ sagði Maruizio Crivallero, framkvæmdastjóri samtakanna í Írak í yfirlýsingu til fjölmiðla.

Borgin er sú stærsta sem liðsmenn Íslamska ríkisins, Daish-samtakanna hafa enn á valdi sínu í Írak.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×