Lífið

Skrýtið að fólk sé farið að þekkja mann

Adda Soffia Ingvarsdóttir skrifar
Heiða nýtur mikilla vinsælda úti í Bretlandi, í kjölfar sýninga á þáttunum Poldark.
Heiða nýtur mikilla vinsælda úti í Bretlandi, í kjölfar sýninga á þáttunum Poldark. Vísir/getty
Bresku þættirnir Poldark hafa slegið í gegn í Bretlandi, en þar fer leikkonan Heiða Rún Sigurðardóttir með eitt af aðalhlutverkunum. „Það er eiginlega algjör heiður að mæta í vinnuna, að fá að vinna með svona mörgu góðu fólki og með gott handrit.“

Tökum á fyrstu seríu lauk fyrir skemmstu og er stefnt að því að tökur á annarri seríu hefjist í september. „Það er ekkert gefið að halda áfram með sjónvarpsseríur, sérstaklega ef maður gerir bara samning um eina í einu. Þetta veltur allt á áhorfinu,“ segir hún, en þættirnir hafa notið mikilla vinsælda ytra.

Heiður að vinna fyrir BAFTA

Um síðustu helgi fékk hún þann heiður að afhenda verðlaun á BAFTA Craft-verðlaunahátíðinni, þar sem fólkið á bak við tjöldin var verðlaunað.

„Ég var ekkert smá hissa þegar umboðsmaðurinn minn hringdi í mig og tilkynnti mér að ég ætti að afhenda verðlaun. BAFTA er virðuleg stofnun og það er mikill heiður að fá að vinna með henni.“

Hún segist ekki reikna með því að fara á stóru hátíðina sem fer fram í maí, enda sé þátturinn það nýr að hann komi ekki til greina til tilnefningar fyrr en að ári liðnu.

Heiða á BAFTA Craft hátíðinni.Vísir/Getty
Stöðvuð í lestinni

Heiða segist ekki enn vera búin að venjast því að ókunnugt fólk þekki hana úti á götu, og jafnvel stöðvi hana.

„Stundum held ég hreinlega að ég sé að ímynda mér að fólk sé að horfa á mig,“ segir hún og hlær. „Það er eiginlega vandræðalegast að lenda í því í lestinni, því þá kemst maður ekki neitt. Ég lenti í því um daginn að einhver kona sem var aðdáandi, alveg yndisleg samt, talaði við mig í lestinni í gegnum 4 eða 5 stopp. Ég auðvitað komst ekkert og sökum þess hversu lengi hún talaði við mig þá tóku allir eftir mér og horfðu.“ 

Íslandsheimsókn í sumar

Aðspurð hvort hana langi að taka að sér fleiri verkefni heima á Íslandi segist hún meira en til í það. „Það er ótrúlega gaman að vinna heima og mér finnst verkefnin verða metnaðarfyllri og flottari með hverju árinu sem líður. Ég ber mikla virðingu fyrir bransanum heima og leikurunum, sem eru hver öðrum hæfileikaríkari.“ 

Þessa dagana er Heiða að leika í leikritinu Scarlett, sem fjallar um unga stúlku sem verður fyrir barðinu á hefndarklámi og hvernig hún vinnur úr þeirri lífsreynslu.

Sumarið er óljóst hvað verkefni varðar. „Ég er að skoða ýmislegt og hef farið á nokkra fundi vegna verkefna, en það er ekkert ákveðið.“

Hún stefnir að því að koma til Íslands í júlí og mögulega aftur í ágúst, ásamt leikurum úr þáttunum. „Þá langar mikið að koma og vonandi finnum við tíma til þess. Ég þarf að sýna þeim gullna hringinn og fara með þau í hvalaskoðun og svona,“ segir hún og hlær.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×