Innlent

Skotum rignir yfir Íslendinga í Keníu

Stefán Árni Pálsson skrifar
Ástandið er svakalegt á mörgum stöðum í Keníu.
Ástandið er svakalegt á mörgum stöðum í Keníu. mynd/lýður
„Maður náði loksins góðum myndum af þessu,“ segir Lýður Skúlason, Íslendingur, sem starfar í Keníu ásamt níu öðrum Íslendingum. Þegar hópurinn var á leiðinni til vinnu í vikunni keyrðu þeir fram á mótmæli sem höfðu brotist út. Lýður og hans hópur er staðsettur rétt norðan við Næróbí.

„Eitt af fyrirtækjunum hér á svæðinu er að borga starfsfólki sínu mjög lá laun sem varð til þess að starfsmennirnir fóru og mótmæltu. Svona gerist oft í kringum okkur. Mótmælendurnir mæta sjálfir með boga, örvar, spjót og steina. Síðan kemur lögreglan og reynir að ná töku á aðstæðunum með því að skjóta úr byssum.“

Lýður segir að lögreglan skjóti oftast aðeins upp í loftið.

„Stundum er samt fólk hreinlega skotið hér. Ég sá einu sinni mann skotinn út á götu, en það gerðist annarstaðar hérna í landinu. Það var þjófur og þótti ekkert tiltöku mál. Sá sem var með mér í bíl keyrði alveg upp að líkinu og spurði hvað hefði gerst. Þá fékk hann þau svör frá lögreglumanni að þetta hafi bara verið þjófur. Bílstjórinn skrúfaði þá bara upp rúðuna, hélt áfram för sinni og keyrði upp úr blóðpollinum eins og ekkert hefði í skorist.“

Dekk sett yfir fólk og það brennt

Hann segir að almenningur sé vanur því að sjá fólk skotið út á götu.

„Eða það eru sett dekk yfir þau og það brennt,“ segir Lýður sem vill samt benda á það að það sé alls ekkert óöruggt fyrir Íslendingana að vera á svæðinu.

„Ég er eiginlega óöruggari í London en hér. Það er alls ekkert allt slæmt hér í Kenía, þetta er magnað land.“

Lýður náði myndbandi af mótmælunum um daginn en það má sjá hér að neðan. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×