Innlent

Skotárásin í Ottawa: Íslendingi sagt að halda kyrru fyrir á skrifstofu í kanadíska þinghúsinu

Atli Ísleifsson skrifar
Jean François Tessier, Natalya Maslennikov og Myriam Pineault-Latreille eru nú læst inni á skrifstofu sinni í kanadíska þinghúsinu.
Jean François Tessier, Natalya Maslennikov og Myriam Pineault-Latreille eru nú læst inni á skrifstofu sinni í kanadíska þinghúsinu. Mynd/Jean François Tessier
Íslenski ríkisborgarinn Jean Francois Tessier, aðstoðarmaður kanadíska þingmannsins Alexandrine Latendresse, er nú fastur á skrifstofu sinni ásamt samstarfsfólki í kanadíska þinghúsinu á meðan lögregla leitar fleiri árásarmanna í miðborg Ottawa.

Lögregla hefur fyrirskipað starfsmönnum þingsins að halda kyrru fyrir og hefur miðborg Ottawa verið girt af.

Fjölmörgum skotum var hleypt af fyrir utan og inni í kanadíska þinghúsinu fyrr í dag. Lögregla hefur staðfest að árásarmaður hafi verið skotinn til bana, en fleiri er nú leitað.

Jean Francois segir í samtali við Vísi að fjölmargir hermenn og lögreglumenn séu nú staðsettir fyrir utan þinghúsið. „Við höfum heyrt að herinn sé með leyniskyttur á þaki listasafnsins skammt frá. Það eru lögreglumenn alls staðar. Okkur er haldið á skrifstofum okkar. Öryggisverðir þingsins eru þeir einu með lykla svo við bíðum bara. Okkur var ráðlagt að standa ekki nálægt glugganum.“

Jean Francois starfsfólk ekki hafa hugmynd um hvenær það fái heimild til að yfirgefa skrifstofuna.

Jean Francois segir að hermaður við minnisvarða skammt frá þinghúsinu hafa verið skotinn í bringuna í morgun. Árásarmaðurinn hafi svo ekið bíl að þinghúsinu, hlaupið inn og hafið skothríð. „Þingmenn voru á þingflokksfundum þegar árásin átti sér stað og hefur þeim verið komið í öruggt skjól. Engar upplýsingar hafa borist um að einhver þeirra hafi slasast, en þeim er nú haldið læstum inni í herbergjum með lögreglu og öryggisvörðum.“

Jean Francois segist hafa fengið það staðfest að maðurinn sem kom sér inn í aðalbyggingu þingsins hafi verið skotinn til bana af lögreglu. Hann segir lögreglu nú telja að árásarmennirnir séu tveir eða þrír í heildina. „Lögregla hefur einnig staðfest að skotum hafi síðar verið hleypt af skammt frá þinghúsinu, við Sparks-götu.“

Tessier segir að hermaður standi ávallt vörð við minnisvarðann skammt frá þinghúsinu og sá sem stóð þar í morgun hafi verið skotinn í bringuna. „Hann er ekki látinn,“ segir Jean Francios.

Jean Francois Tessier er íslenskur ríkisborgari, fæddur í Quebec, sem bjó hér á landi í tíu ár. Hann varð aðstoðarmaður Latendresse haustið 2011.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×