Erlent

Skotárásin í Kanada: „Versta martröð foreldra“

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Dene High School í bænum La Loche.
Dene High School í bænum La Loche. Mynd/ Google street view
Fjórir eru látnir og að minnsta kosti tveir eru særðir eftir skotárás í gærkvöldi á tveimur stöðum í smábæ í Norður-Kanada. Forsætisráðherra Kanada, Justin Trudeau, hefur lýst skotárásinni sem verstu martöð hvers foreldris.

Árásarmaðurinn er grunaður um að hafa í fyrstu skotið tvo bræður sína til bana á heimili þeirra áður en hann hélt í skóla í bænum La Loche í Saskatchewan-héraði þar sem hann skaut tvo til bana.

Lögreglan hefur árásarmanninn í haldi en bæjarstjóri La Loche, Kevin Janvier, staðfesti við blaðamenn að 23 ára gömul dóttir hans, kennari í skólanum, hefði látist í skotárásinni. „Hann skaut tvo bræður sína heima hjá sér áður en hann fór í skólann,“ sagði Janvier.

„Ég er svo sorgmæddur.“

Nemandi við skólann sagði að hann hefði heyrt marga skothvelli þegar árásin átti sér stað. Í fyrstu var talið að fimm hefðu látist en yfirmaður kanadísku lögreglunnar staðfesti að fjórir hefðu látist og nokkrir særst. Gat hann ekki gefið upp hversu margir hefðu særst í árásinni eða hversu alvarlega þeir hefðu særst.

Dene High School er hluti af La Loche Community School og búa um 2.600 manns í bænum. Nemendur skólans eru alls um níu hundruð talsins og átti árásin sér stað í þeim hluta skólans sem er með nemendur í sjöunda bekk og upp í tólfta.

Forsætisráðherra Kanada, Justin Trudeau er staddur í Davos í Sviss en hann ávarpaði fjölmiðlamenn.

„Þetta er versta martröð foreldra og það standa allir með íbúum La Loche og Saskatchewan-héraði á þessum erfiða degi,“ sagði Trudeau.

Árásin er versta skotárásin í áraraðir í Kanada. Árið 1989 létust 14 manns í skotárás í skóla í Montreal en tíu árum síðar var einn myrtur í skóla í Alberta. Árið 2006 lést einn og 19 særðust í skotárás í skóla í Montreal.

Þrjú ár eru síðan yfirvöld í Kanada slökuðu á reglugerðum varðandi byssueign. Sé litið til Kanada í heild eru flestir byssuglæpir framdir í Saskatchwewan-héraði auk þess sem að tvöfalt fleiri heimilisofbeldismál koma til kasta lögreglu í héraðinu en í öðrum héruðum Kanada.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×