Innlent

Skotárásin í Hraunbæ: Niðurstöður rannsóknar ríkissaksóknara birtar í dag

Kjartan Atli Kjartansson skrifar
Greinargerð ríkissaksóknara er að vænta í dag.
Greinargerð ríkissaksóknara er að vænta í dag.
Greinargerðar ríkissaksóknara um Hraunbæjarmálið svokallaða er að vænta eftir hádegi í dag. Rannsókn embættisins hefur staðið yfir í hálft ár. Í greinargerðinni verður farið yfir hvort lögregla hafi brugðist við með réttum hætti. Í kjölfar umsátursástands í Hraunbæ í desember í fyrra. Einn maður lét lífið í skotbardaga við lögregluna.

Þetta var í fyrsta sinn sem maður féll í átökum við lögreglu hér á landi.

Hér má sjá skothylki á vettvangi.
Kaldur mánudagsmorgun

Aðfaranótt mánudagsins annars desember var lögreglan kölluð út í Hraunbæ í Árbæjarhverfinu. Grunur lék á að maður, sem síðar kom í ljós að hét Sævarr Rafn Jónasson, hefði hleypt skotum af haglabyssu í íbúðarhverfi. Strax um morguninn var stóru svæði í hverfinu lokað og var sérsveit ríkislögreglustjóra kölluð út.

Fjöldahjálparstöð fyrir íbúa á svæðinu var opnuð annarsstaðar í Árbænum. Þangað leituðu margir íbúar sem voru beðnir að yfirgefa íbúðir sínar vegna þess að þeir voru í hættu. Íbúum var mörgum mjög brugðið.

Seinna kom í ljós að maðurinn hafði skotið út um glugga á íbúð sinni. Hann skaut á lögreglu þegar hún kom á vettvang og gengu skot á milli lögreglunnar og mannsins fram á morgun. Náðist skothríðin meðal annars á myndband.

Maðurinn færði sig á milli herbergja og undir það síðasta lá hann uppi í rúmi, settist upp, skaut að lögreglu og lagðist svo aftur niður. Lögreglan skaut til að byrja með á annað herbergi en eftir að hafa fengið upplýsingar hjá nágranna skaut hún reyksprengju inn um gluggann þar sem maðurinn var.

Stuttu seinna yfirbugaði lögreglan manninn. Að sögn nágranna var maðurinn illa særður. Annað vitni sagði að lögreglan hefði skotið 70-80 skotum á íbúðina. Íbúi í nágrenninu sagði frá því að lögreglan hafi notað táragas í skotbardaganum.

Lést á Landspítalanum

Eftir skotbardaga við lögreglumenn var farið með manninn á Landspítalann. Þar lést hann af völdum skotsára. Í kjölfar skotárásarinnar hélt lögreglan blaðamannafund þar sem greint var frá aðgerðum hennar. Þar kom í ljós að einn sérsveitarmaður hafði fengið skot í hjálm og andlit og annar í vesti og í höndina.

„Þegar lögreglan reynir að hafa samband við íbúann koma engin svör frá honum. Sérsveitarmenn fara inn í íbúðina og þá er skotið á þá. Skot lenti í hlífðarskildi eins lögreglumannanna sem féll í kjölfarið niður stiga og dró lögregla sig þá til baka. Íbúðir voru rýmdar og þeim aðgerðum lauk um klukkan fimm í nótt. Allt tiltækt lögreglulið var sent á vettvang. Reynt var að yfirbuga hann með beitingu gasvopna sem bar ekki árangur. Þá hóf maðurinn að skjóta út um glugga á íbúðinni og þá var ákveðið að ráðast inn. Þá gerist það að hann skýtur á ný að lögreglumönnunum, í höfuð eins sérsveitarmannanna, en hann var með hjálm og sakaði ekki,“ sagði Stefán Eiríksson, lögreglustjóri lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, á fundinum.

Á fundinum kom fram að um fimmtán til tuttugu lögreglumenn hefðu komið að málinu, auk sérsveitarmanna. 

Sérsveitin var kölluð á vettvang.
Vísað frá Noregi ævilangt

Um kvöldið sagði Vísir frá því að byssumaðurinn hefði átt við langvarandi geðræn vandamál að stríða og var í mikilli neyslu vímuefna árin áður en hann lést. Hann hafði áður komið við sögu lögreglu, bæði á Íslandi og í Noregi.

Í dómsskjölum kemur fram að maðurinn kom til landsins í fylgd norsku lögreglunnar árið 1982. Þá hafði honum verið vísað frá Noregi ævilangt vegna ítrekaðs þjófnaðar.

Maðurinn var síðan úrskurðaður í gæsluvarðhald á Íslandi árið 1982 vegna gruns um stórfellda þjófnaði hér á landi, meðal annars á bifreið og samtals 44 þúsund krónum í gjaldeyri og ávísunum. Í dómsskjölum kemur fram að við yfirheyrslur hafi maðurinn ekki fengist til að svara spurningum lögreglu eða dómara nema með útúrsnúningum.



Sneri aftur til Noregs


Þrátt fyrir að hafa verið settur í ævilangt bann frá Noregi virðist maðurinn engu að síður hafa snúið þangað aftur, því að í febrúar árið 1986 var hann ákærður fyrir tilraun til manndráps og úrskurðaður í gæsluvarðhald. Auk þess var hann ákærður fyrir meðferð eiturlyfja, innbrot og þjófnaði í Ósló og nágrenni.

Maðurinn hafði verið handtekinn við innbrot í norðurhluta Óslóar í október árið 1985 en þegar lögregla kom að honum dró hann upp sjálfvirka skammbyssu og beindi að henni.

Maðurinn var handtekinn í kjölfarið en þótti afar ósamvinnuþýður, eins og kom fram í umfjöllun Tímans, á níunda áratug síðustu aldar.

Margar spurningar

Margar spurningar vöknuðu í kjölfar málsins. Tvær dagmæður í hverfinu voru mjög reiðar að jafn veikur maður með jafn langan sakaferil hafi fengið úthlutaðri félagslegri íbúð í hverfi þar sem mörg börn bjuggu. Önnur dagmamman spurði einnig: „Af hverju var hann með byssu? Það er eitthvað mikið sem ekki er í lagi hérna.“

Viku eftir skotárásina í Hraunbæ kom upp svipað mál á Sauðárkróki. Þar hafði maður á miðjum aldri lokað sig af í húsi í bænum með byssur og hótaði því að beita þeim. Maðurinn sagðist hafa fundið til samkenndar með Sævarri, byssumanninum í Hraunbæjarmálinu. 

Hér má sjá myndir frá rannsókn lögreglu.
„Harmsaga veiks manns“

Systir Sævarrs, Anna Jóna Jónasdóttir, sagði í viðtali við Vísi, daginn eftir skotbardagann, að bróðir hennar hefði verið mjög veikur. Hún sagði frá því hvernig bróðir hennar fór á milli geðdeilda, áfangaheimila og félagslegra íbúða. Aldrei náði hann að fóta sig. Hún gagnrýndi þá ákvörðun að úthluta honum félagslega íbúð, hann hafi í raun ekki getað séð um sig sjálfur.

„Hann var mikið veikur maður en hann var settur út í lífið aftur án samráðs við okkur og án lyfja. Ég myndi segja að þetta sé harmsaga veiks manns,“ útskýrði hún og bætti við:

„Það var eins og hann fyndi það að hann væri alls staðar fyrir og ekkert væri hlustað. Við erum bara ósköp þakklát fyrir að hann varð engum að bana. Þetta er skelfilegur atburður. Okkur þótti bara betra fyrst þetta þurfti að fara svona að hann lét lífið frekar en einhver fjölskyldumaður. Lífið hans var ekki neinn dans, þetta hefur verið ósköp erfitt,“ segir Anna Jóna.


Tengdar fréttir

"Hann hótaði að gera þetta fyrir nokkrum mánuðum"

Systur Sævars Rafns Jónassonar, sem lést eftir að hafa skipst á skotum við lögreglu í gær, segja hann hafa hótað aðgerðunum nokkrum mánuðum áður en hann lét til skarar skríða.

„Samfélagið brást honum“

„Af hverju var þessi maður ekki á stofnun, mér finnst við hafa brugðist honum, samfélagið hefur brugðist honum,“ segir Kristen Mary Swenson, íbúi í Hraunbæ, þar sem hinir skelfilegu atburðir áttu sér stað í gær.

Skaut tvo lögreglumenn

Einn lögreglumaður særðist í aðgerðum lögreglunnar og sérsveitar ríkislögreglustjóra í Hraunbæ í Árbæ í morgun. Hinn slapp með skrekkinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×