Erlent

Skotar þegar byrjaðir að undirbúa þjóðaratkvæðagreiðslu um sjálfstæði

Gunnar Reynir Valþórsson. skrifar
Mikill meirihluti Skota kaus með því að Bretland yrði áfram innan ESB.
Mikill meirihluti Skota kaus með því að Bretland yrði áfram innan ESB. Vísir/Getty
Nicola Sturgeon, forseti skosku heimastjórnarinnar, sagði á blaðamannafundi nú á ellefta tímanum að Skotar hafi þegar hafið undirbúning að nýrri þjóðaratkvæðagreiðslu um sjálfstæði Skotlands.

Skotar kusu með áframhaldandi veru Bretlands í Evrópusambandinu í gær og Sturgeon segir að í ljósi niðurstöðunnar í gær sé eðlilegt að Skotar, sem vilja vera í ESB, taki á ný afstöðu til sjálfstæðis.

Árið 2014 kusu 44 prósent Skota með því að að Skotland lýsti yfir sjálfstæði. Í samtali við Vísi fyrr í dag sagði Stefanía Óskarsdóttir, dósent í stjórnmálafræði að Skotar væru upp til hópa Evrópusambandssinnar og að þeir sæu framtíð Skotlands í ESB.

Talið er að þrír mánuðir muni líða uns Bretar segja sig formlega úr sambandinu og frá þeim tíma líða um tvö ár uns þeir hverfa þaðan. Sturgeon vill hafa vaðið fyrir neðan sig og hefja undirbúning að þjóðaratkvæðagreiðslu strax svo hægt sé að halda hana áður en Bretland hverfur úr ESB þannig að sjálfstætt Skotland geti haldið áfram í Evrópusamstarfinu.


Tengdar fréttir

Bretar ganga úr Evrópusambandinu

Bretar völdu sér það hlutskipti að ganga úr Evrópusambandinu í sögulegri þjóðaratkvæðagreiðslu í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×