Erlent

Skoski þjóðarflokkurinn missti meirihlutann á skoska þinginu

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Nicola Sturgeon, formaður Skoska þjóðarflokksins.
Nicola Sturgeon, formaður Skoska þjóðarflokksins. vísir/getty
Skoski þjóðarflokkurinn tapaði meirihluta sínum á skoska þinginu í kosningum sem fram fóru í gær. Af 129 þingsætum hlaut flokkurinn 63 sæti og tapaði þannig sex þingmönnum. Þá beið Verkamannaflokkurinn enn eitt afhroðið í Skotlandi en flokkurinn missti 13 þingsæti á skoska þinginu.

Íhaldsflokkurinn eykur hins vegar við þingstyrk sinn með því að bæta við sig 16 þingmönnum. Græningjar bæta við sig fjórum þingsætum og eru nú með sex þingmenn en frjálslyndir demókratar halda sínum fimm þingmönnum.

Í umfjöllun vefmiðilsins Independent er niðurstöðunum lýst sem hörmulegum fyrir Verkamannaflokkinn en Skotland var lengi helsta vígi flokksins. Flokkurinn tapaði hins vegar stórt í Skotlandi í bresku þingkosningunum í fyrra og virðist ekki ná vopnum sínum þrátt fyrir nýja leiðtogann, Jeremy Corbyn.

Þá má segja að vonir Skoska þjóðarflokksins um að halda aðra þjóðaratkvæðagreiðslu um sjálfstæði Skotlands séu að einhverju leyti brostnar þar sem flokkurinn missti meirihluta sinn en hann er þó enn stærsti flokkurinn á skoska þinginu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×