Fótbolti

Skoska vonarstjarnan valdi RB Leipzig fram yfir ensku úrvalsdeildina

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Oliver Burke er stór og stæðilegur. Hér er hann í leik með Nottingham Forest.
Oliver Burke er stór og stæðilegur. Hér er hann í leik með Nottingham Forest. Vísir/Getty
Hinn stórefnilegi Oliver Burke hefur gengið í raðir þýska úrvalsdeildarliðsins RB Leipzig en félagið er nýliði í deildinni.

Burke er nítján ára skoskur landsliðsmaður og kemur frá Nottingham Forest þar sem hann hóf tímabilið af krafti og skoraði fjögur mörk í fyrstu fimm leikjunum.

Burke hefur verið nefndur hinn skoski Gareth Bale en mörg af stærstu liðum Evrópu höfðu verið á höttunum eftir honum. Kaupverðið er óuppgefið en talið er að Leipzig hafi greitt þrettán milljónir punda, jafnvirði tæpra tveggja milljarða króna, fyrir hann.

Hann skrifaði undir fimm ára samning við félagið en hann er sjötti leikmaðurinn sem kemur til liðs við það í sumar og sá næstdýrasti.

Leipzig ætlar sér stóra hluti í þýsku úrvalsdeildinni og markmiðið er að velta bæði Bayern München af stalli sínum og blanda sér svo í baráttu við bestu lið Evrópu.

Orkudrykkjarisinn Red Bull keypti þýska neðrideildarliðið SSV Markranstadt fyrir fimm árum síðan og hefur síðan þá komið liðinu upp í þýsku úrvalsdeildina á mettíma.

Burke þreytti frumraun sína með Forest aðeins sautján ára og spilar yfirleitt á hægri kantinum. Miklar vonir eru bundnar við hann í heimalandinu en talið er að lið eins og Barcelona, Bayern München, Arsenal, Leicester, Manchester United og Tottenham.

Hér má lesa nánari úttekt á Burke, á heimasíðu BBC.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×