Innlent

Skoruðu á Sigurð Inga að laga þriggja kílómetra kafla á Borgarfjarðarvegi

Birgir Olgeirsson skrifar
Sigurður Ingi tekur við mótmælalistanum.
Sigurður Ingi tekur við mótmælalistanum. Eyþór Stefánsson
Sigurður Ingi Jóhannsson samgönguráðherra tók við um 2.500 undirskriftum frá íbúum á Austurlandi sem vilja að þriggja kílómetra kafli á milli Borgarfjarðar eystri og Egilsstaða verði malbikaður í sumar. Um er að ræða Borgarfjarðarveg 94 sem er um 70 kílómetra langur. Af þessari 70 kílómetra leið eru 28 kílómetra langur malarvegur en á þeim spotta er þriggja kílómetra kafli sem verður ansi slæmur þegar umferð eykst á sumrin.

Er um að ræða veginn um Njarðvíkurskarð en sveitarfélagið fyrir austan hefur í hyggju að ráðast í framkvæmdir þar í sumar og skoruðu þau Eyþór Stefánsson, kærasta hans Steinunn Káradóttir og bróðir hennar Óttar Már Kárason á Sigurð Inga að ráðast í vegabætur á þeim kafla samhliða þeim framkvæmdum.

Íbúar á Borgarfirði eystra tóku sig til og hófu framkvæmdir á veginum í mótmælaskyni í febrúar síðastliðnum.Vísir/TINNA
„Hann sagðist taka við þessu með það að markmiði að hægt yrði að ráðast í þann kafla og áframhald seinna. Við leyfum okkur að vera hóflega bjartsýn eftir þetta og miðað við hvernig hann talar myndi maður halda að það yrði líklegra en hitt að það muni rætast úr þessu,“ segir Eyþór Stefánsson í samtali við Vísi um fundinn.

Hann segir Borgfirðinga vana því að heyra af þessum vegi á samgönguáætlun en að honum sé síðar kippt af henni. Eyþór vonast til að það muni breytast eftir þennan fund í dag.

Hann segir Sigurð Inga hafa verið minntan á að þau vonuðu að ef ráðist yrði í vegabætur á þessum þriggja kílómetra kafla í sumar þá þyrftu þau ekki að bíða í annan áratug eftir frekari samgöngubótum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×