Innlent

Skortur á þráðlausu neti í leikskólum hamlar námi

Ingibjörg Bára Sveinsdóttir skrifar
Með spjaldtölvu. Breskir kennarar segja fjögurra ára börn skorta hreyfifærni til að byggja með kubbum vegna mikillar spjaldtölvunotkunar. Engar líkur á slíku hér, segir varaformaður Félags leikskólakennara.
Með spjaldtölvu. Breskir kennarar segja fjögurra ára börn skorta hreyfifærni til að byggja með kubbum vegna mikillar spjaldtölvunotkunar. Engar líkur á slíku hér, segir varaformaður Félags leikskólakennara. Fréttablaðið/Stefán
Leikskólakennarar í Kópavogi og mörgum öðrum sveitarfélögum geta ekki notað efni Námsgagnastofnunar fyrir spjaldtölvur vegna þess að ekkert þráðlaust net er í leikskólunum. Þetta segir Fjóla Þorvaldsdóttir, varaformaður Félags leikskólakennara og sérkennslustjóri, sem kennt hefur leikskólakennurum að nota spjaldtölvur.

„Við hér í Kópavogi erum enn aftur í fornöld. Þetta er mjög bagalegt því að Námsgagnastofnun er með fínan krakkavef með íslensku efni sem hún hefur verið að endurbæta og laga svo hægt sé að nota hann í ipad,“ segir Fjóla.

Á vef Kópavogsbæjar í desember síðastliðnum segir að átján leikskólar hafi fengið afhentar spjaldtölvur. Stefnt sé að því að setja upp öruggt þráðlaust net í öllum leikskólunum á þessu ári. „Bæjarfélagið lét hvern leikskóla fá eina spjaldtölvu og hafa þær verið mikið notaðar við sérkennslu með góðum árangri. Rannsóknir í Danmörku, Skotlandi og Svíþjóð hafa leitt í ljós að börnum fer mikið fram í tungumálakunnáttu í slíkri sérkennslu. Það er einnig mín reynsla.“

Fjóla Þorvaldsdóttir
Á árlegu þingi breskra kennara í samtökunum Association of Teachers and Lecturers vöruðu nokkrir kennarar við spjaldtölvunotkun ungra barna. Fram kom á þinginu að fjögurra börn væru fær í að renna fingrum eftir skjám á spjaldtölvum en þau skorti hins vegar hreyfifærni til að byggja með kubbum.

Fjóla telur engar líkur á slíkt komi fyrir íslensk börn. „Leikurinn er námsleið barna á Íslandi og leikskólakennarar eru mjög meðvitaðir um það. Víða í Evrópu eru fjögurra ára börn farin að sitja við borð í akademísku námi. Hér eru þau við leik. Það er þeirra námsleið. Skólakerfið á Íslandi er allt öðruvísi uppbyggt og miklu betra.“

Hún kveðst hvetja leikskólakennara til að nota spjaldtölvur í skapandi starfi með börnum. „Ég bendi þeim líka á að ná sér í smáforrit sem hægt er að þýða. Mér finnst skipta máli að börnin læri á íslensku. Það eru til flott forrit sem auðvelda alla vinnu í skapandi starfi.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×