Innlent

Skorið niður um 1,8 milljarða hjá borginni

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Ráðhús Reykjavíkur.
Ráðhús Reykjavíkur. Vísir/Stefán

Borgarráð hefur samþykkt að skera niður í rekstri borgarinnar um 1,8 milljarða á næsta fjárhagsráði. Er það liður í sérstakri aðgerðaráætlun sem nær til ársins 2018 og er ætlað að ná fram hagræðingu í rekstri borgarinnar.

Samkvæmt áætluninni á miðlæg stjórnsýsla og stjórnsýsla á fagsviðum borgarinnar að taka á sig 5 prósent hagræðingu auk þess sem þjónusta fagsviða á að hagræða um 1,5 prósent í útgjöldum og annarri þjónustu.

Mest verður skorið niður hjá Skóla- og frístundasviði eða um tæpar 670 milljónir króna. Hjá Velferðarsviði verður skorið nuður um 412 milljónir og í Ráðhúsinu og miðlægri stjórnsýslu verður skorið niður um 325 milljónir.

Stefnt er að því að stilla gjaldskrám vegna þjónustu leikskóla, grunnskóla og frístundar í hóf auk þess sem standa á vörð um grunnþjónustu en leita á hagkvæmari leiða til þess að veita hana. Hægt verður á nýráðningum auk þess sem nýta á betur húsnæði borgarinnar.

Til að styðja við aðgerðaáætlun verður stofnaður stýrihópur Í honum eiga sæti oddvitar allra flokka í borgarstjórn, borgarritari, fjármálastjóri Reykjavíkurborgar og skrifstofustjóri SEA. Í hagræðingarhópum eigi sæti sviðsstjórar, fjármálastjórar fagsviða, skrifstofustjórar fagskrifstofa, fulltrúar fjármálaskrifstofu ráðhúss, auk annarra.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×