Enski boltinn

Skorar Gylfi aftur gegn Chelsea? | Myndband

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Sex leikir fara fram í ensku úrvalsdeildinni í dag.

Gylfi Þór Sigurðsson og félagar í Swansea City sækja topplið Chelsea heim.

Chelsea getur náð 11 stiga forskoti með sigri en liðið hefur verið nær óstöðvandi undanfarna mánuði.

Swansea hefur einnig gengið vel að undanförnu en liðið hefur unnið þrjá af síðustu fjórum leikjum sínum. Gylfi og félagar eru í 15. sæti deildarinnar með 24 stig, fjórum stigum frá fallsæti.

Liðin gerðu 2-2 jafntefli í fyrri leiknum á Liberty vellinum. Gylfi skoraði fyrra mark Swansea úr vítaspyrnu sem hann fiskaði sjálfur.

Everton, sem hefur verið eitt besta lið deildarinnar eftir áramót, fær botnlið Sunderland í heimsókn.

Svörtu kettirnir hans Davids Moyes steinlágu fyrir Southampton, 0-4, í síðustu umferð á meðan Everton gerði markalaust jafntefli við Middlesbrough.

Boro sækir Crystal Palace heim í afar mikilvægum leik í botnbaráttunni. Palace er í nítjánda og næstneðsta sæti deildarinnar með 19 stig á meðan Boro er í því sextánda með 22 stig.

Hull City hugsar sér eflaust gott til glóðarinnar er liðið fær Burnley í heimsókn. Burnley er lélegasta útivallarlið deildarinnar en það hefur aðeins náð í eitt stig á útivelli í vetur.

West Brom og Bournemouth eigast við á The Hawthornes. Lærisveinar Tonys Pulis eru í góðum málum í 8. sæti deildarinnar á meðan Bournemouth er farið að nálgast fallsvæðið eftir slakt gengi að undanförnu.

Í síðasta leik dagsins sækir West Ham United Watford heim. Watford vann fyrri leikinn með fjórum mörkum gegn tveimur. Síðan þá hefur margt breyst en West Ham hefur verið á góðri siglingu að undanförnu.

Leikir dagsins:

15:00 Chelsea - Swansea

15:00 Everton - Sunderland

15:00 Crystal Palace - Middlebrough

15:00 Hull - Burnley

15:00 West Brom - Bournemouth

17:30 Watford - West Ham




Fleiri fréttir

Sjá meira


×