Fótbolti

Skoraði sigurmarkið gegn Tottenham í sínum fyrsta leik fyrir Juventus

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Ítalíumeistarar Juventus lögðu Tottenham, 2-1, í leik liðanna í International Champions Cup sem fram fer í fjórum heimsálfum þessa dagana en leikurinn fór fram í Melbourne í Ástralíu.

Paulo Dybala kom Juventus yfir strax á sjöttu mínútu og Marokkómaðurinn Medhi Benatia kom ítalska liðinu í 2-0 aðeins átta mínútum síðar.

Miðvörðurinn er nýgenginn í raðir Juventus frá Bayern München og var að spila sinn fyrsta leik fyrir gömlu konuna. Þetta reyndist vera sigurmarkið í leiknum.

Argentínumaðurinn Erik Lamela kom inn á sem varamaður í hálfleik og minnkaði muninn fyrir Lundúnarliðið á 67. mínútu en nær komst Tottenham ekki. Lokatölur, 2-1.

Juventus tapaði fyrir Melbourne Victory í fyrsta leik liðsins í æfingamótinu um síðustu helgi í vítaspyrnukeppni en fékk samt eitt stig fyrir jafntefli í venjulegum leiktíma.

Ítalíumeistararnir eru nú með fjögur stig eftir tvo leiki en Tottenham er án stig og á eftir leik gegn ástralska liðinu. Þessi þrjú lið taka þátt í Ástralíu hluta æfingamótsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×