Körfubolti

Skoraði hundrað stig í NBA-leik fyrir 55 árum síðan

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Annar dagur marsmánaðar er sögulegur dagur fyrir NBA-deildina í körfubolta því á þessum degi setti Wilt Chamberlain stigamet sem enginn hefur ógnað síðan þá.

Í dag er því 55 ára afmæli hundrað stiga leiks Wilt Chamberlain en hann skoraði 100 af 169 stigum Philadelphia Warriors í sigri á New York Knicks en leikurinn fór fram í bænum Hershey sem er þekktari fyrir súkkulaðið en körfubolta.

Wilt Chamberlain var magnaður þetta tímabil en hann skoraði 50,4 stig að meðaltali í leik með Philadelphia Warriors. Það er að sjálfsögðu einnig met.

ESPN hefur tekið saman nokkrar tölur tengdum þessum 100 stiga leik hans en þar má einnig sjá þessa ótrúlegu viku hans fyrir 55 árum síðan. Það má sjá það hér fyrir neðan.

Í fimm leikjum á átta dögum skoraði Chamberlain 67 stig, 65 stig, 61 stig, 100 stig og 58 stig. Þetta gerir 351 stig á átta dögum eða 70,2 stig að meðaltali í leik.

Wilt Chamberlain var með fjóra 60 stiga leiki á þessari rúmri viku en Kobe Bryant náð samtals sex 60 stiga leikjum á sínum ferli og Michael Jordan var með fimm 60 stiga leiki á öllum sínum glæsilega ferli.  Chamberlain tókst aftur á móti 32 sinnum að brjóta 60 stiga múrinn.

Kobe Bryant komst næst þessum hundrað stiga leik þegar hann skoraði 81 stig fyrir Los Angeles Lakers á móti Toronto Raptors 22. Janúar 2006. Chamberlain á annars sex af tíu stigahæstu leikjum leikmanna í NBA-sögunni.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×