Fótbolti

Skoraði gegn liðinu sem hann er á láni frá og hraunaði svo yfir það

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Talisca skoraði fallegt mark í gær.
Talisca skoraði fallegt mark í gær. vísir/getty
Brasilíumaðurinn Talisca var hetja tyrkneska liðsins Besiktas í gærkvöldi þegar hann skoraði jöfnunarmark, 1-1, á móti Benfica úr glæsilegri aukaspyrnu á lokamínútum leiks liðanna í riðlakeppni Meistaradeildarinnar.

Það sem er meira en lítið áhugavert við markið er að Talisca er á láni frá Benfica hjá Besiktas en hann fagnaði markinu eins og óður maður enda forráðamenn portúgalska félagsins ekki í miklu uppáhaldi hjá honum.

Þó Brassinn sé formlega á láni hjá Besiktas þykir ólíklegt að hann snúi aftur en tyrkneska félagið getur framlengt lánssamninginn um annað ár hafi það áhuga á því og er svo einnig með forkaupsrétt á leikmanninum.

Talisca skoraði 20 mörk fyrir Benfica á tveimur tímabilum áður en hann bað um að fara til Besiktas. Hann var þá ásakaður af forseta Benfica, Rui Gomes da Silva, að vera bara í peningaleit. Talisca var ekki búinn að gleyma þeim orðum þegar hann fór í viðtal við portúgalska sjónvarpið eftir leik.

„Benfica vanvirti mig. Þegar dóttir mín var aðeins sex daga gömul borgaði félagið öllum leikmönnum liðsins launin sín nema mér,“ sagði Talisca.

„Þetta var samt ekkert hefndarmark. Ég var bara stoltur. Það var mikið af fólki hjá félaginu sem gagnrýndi mig þegar ég fór og sagði mig bara vera að elta peninginn. Það eru allt lygar,“ sagði Talisca.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×