Erlent

Skora á yfirvöld í Paragvæ að leyfa 10 ára stúlku að fara í fóstureyðingu

Birgir Olgeirsson skrifar
Vísir/Getty
Alþjóða mannréttindasamtökin AmnestyInternational hafa birt ákall til yfirvalda í Paragvæ þar sem skorað er á stjórnvöld að leyfa tíu ára stúlku að undirgangast fóstureyðingu. Stúlkan er sögð barnshafandi eftir að hafa verið nauðgað af stjúpföður sínum.

Samkvæmt lögum í Paragvæ eru fóstureyðingar aðeins leyfilegar ef meðgangan ógnar lífi móðurinnar. Heilbrigðisráðuneyti Paragvæ segir ekkert benda til þess að líf stúlkunnar sé í hættu en hún er sögð gengin 22 vikur.

Fjölskylda stúlkunnar hefur hins vegar farið fram á að hún fái að undirgangast aðgerðina og nýtur þessi krafa fjölskyldunnar nú stuðnings AmnestyInternational. Samtökin segja aldur stúlkunnar eiga að veita undanþágu frá þessum lögum og gagnrýna að ekki sé undanþáguákvæði vegna nauðgana.

Líkja samtökin því við pyntingu að ætla að neyða stúlkuna til að eignast barnið. „Yfirvöld í Paragvæ geta ekki setið aðgerðalaus á meðan þessi stúlka er neydd til að þola frekari angist og kvöl,“ segja samtökin.

Læknar komust að því að stúlkan væri barnshafandi eftir að hún hafði leitað til læknis vegna verkja í kviði. Það varð til þess að lögreglan hóf rannsókn á máli stúlkunnar og hefur verið gefin út handtökuskipun á hendur stjúpföður hennar sem er á flótta, að því er fram kemur á vef bandarísku fréttastofunnar CNN.

Móðir stúlkunnar er nú í haldi lögreglunnar en hún á yfir höfði sér ákæru fyrir að vanrækslu gagnvart dóttur sinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×