Innlent

Skora á Vigdísi að hækka framlag til myndlistarsjóðs

Stefán Árni Pálsson skrifar
Jóna Hlíf Halldórsdóttir, formaður SÍM, og Vigdís Hauksdóttir.
Jóna Hlíf Halldórsdóttir, formaður SÍM, og Vigdís Hauksdóttir. VÍSIR/aðsend/PJETUR
Samband íslenskra myndlistarmanna afhendir Vigdísi Hauksdóttur, formanni fjárlaganefndar, undirskriftalista þar sem er skorað á ríkisstjórn Íslands að hækka framlag til myndlistarsjóðs í Iðnó klukkan fjögur á morgun.

Samkvæmt frumvarpi til fjárlaga sem liggur fyrir á Alþingi er lagt til að framlag ríkisins til Myndlistarsjóðs verði 1/3 af upphaflegu framlagi í sjóðinn sem var 45 milljónir árið 2013. Samkvæmt frumvarpinu er lagt til að framlagið verði 15 milljónir árið 2015.

SÍM hefur haldið út undirskriftarlista síðasta mánuð, þar sem þessum aðförum að Myndlistarsjóði er harðlega mótmælt eins og kemur fram í tilkynningu frá sambandinu. Yfir 1000 manns hafa skrifað undir og skorað á þingmenn að snúa þessari þróun við og standa vörð um Myndlistarsjóð.

„Skapandi greinar hafa ekki valdið rekstrarhalla ríkissjóðs undanfarin ár og þær eiga því ekki að þurfa að þola 67% niðurskurð. Til að Myndlistarsjóður geti sinnt lögbundnu hlutverki sínu þarf fullt fjármagn - 45 milljónir,“ segir í tilkynningunni.



Á fundinum verður Dagur Myndlistar einnig formlega settur.



Dagskrá fundarins:

16:00 Ragnar Kjartansson myndlistarmaður heldur erindi.

16:10 Ólöf K. Sigurðardóttir safnstjóri og stjórnarmaður í Myndlistarráði heldur erindi.

16:20 Opnar umræður.

16:40 Ghostigital flytur hljóðgjörninga.

16:50 Elísabet Brynhildardóttir, verkefnastjóri, opnar Dag Myndlistar.

17:00 Jóna Hlíf Halldórsdóttir, formaður SÍM, afhendir Vigdísi Hauksdóttur, formanni fjárlaganefndar, undirskriftalista frá SÍM.

Fundarstjóri verður Markús Þór Andrésson, sýningarstjóri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×