Innlent

Skora á stjórnvöld að bregðast við skýrslu um geðheilbrigðisþjónustu við börn og unglinga

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Frá barna-og unglingageðdeild Landspítalans.
Frá barna-og unglingageðdeild Landspítalans. vísir/vilhelm
Átta félagasamtök skora á stjórnvöld að bregðast við þeim athugasemdum sem settar eru fram í nýútkominni skýrslu Ríkisendurskoðunar um geðheilbrigðisþjónustu barna og unglinga.

Í skýrslunni, sem kom út í dag, kemur fram að börn og unglingar geti þurft að bíða í allt að eitt og hálft ár eftir nauðsynlegri geðheilbrigðisþjónustu. Ríkisendurskoðun telur þetta óviðunandi en félagasamtökin átta taka heilshugar undir hvert orð í skýrslunni. Þá segja hana undirstrika þá alvarlegu stöðu sem verið hefur í málaflokknum um langa hríð.

„Auk þess að ganga gegn lögbundnum skyldum ríkisins stefnir þessi bið bæði langtímahagsmunum þess og velferð borgaranna í tvísýnu. Ef ekki er tekið á markvissan hátt á geðheilsuvanda barna og unglinga um leið og hans verður vart aukast til muna líkur þess að þungbærar og langvarandi afleiðingar, jafnvel örorka, komi síðar fram,“ segir í áskoruninni.

Þá segir jafnframt að seint verði mikilvægi snemmtækrar íhlutunar á grunnstigi undirstrikað. Þá séu ótalin þau áhrif sem aðgerðaleysi hefur óhjákvæmilega á þann sem þjónustuna skortir og alla sem að honum standa.

Að áskoruninni standa ADHD Samtökin, Barnaheill, Einstök börn, Sjónarhóll ráðgjafarmiðstöð, Átak, félag fólks með þroskahömlun, Einhverfusamtökin, Landssamtökin Þroskahjálp og Umhyggja, félag til stuðnings langveikum börnum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×