Erlent

Skólum í Peking skipað að halda börnum innandyra

Samúel Karl Ólason skrifar
Skyggni hefur ekki verið gott.
Skyggni hefur ekki verið gott. Vísir/EPA
Starfsmönnum skóla hefur verið skipað að halda börnum innandyra í Peking í Kína. Forsvarsmönnum verksmiðja hefur verið skipað að draga úr framleiðslu og ekki má keyra flutningabílum um götur borgarinnar. Mengunarstig í borginni mældist 35 sinnum meira en viðmið Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin segja öruggt.

Þetta er fimmti dagurinn í röð sem mengun í borginni er langt yfir því sem öruggt telst. Xi Jinping, forseti Kína, er nú staddur í París, þar sem loftlagsráðstefnan fer fram.

Kol eru notuð til að keyra vélar verksmiðja í Peking en þau eru einnig notuð til að kynda hús og íbúðir. Það er talin stærsta ástæða mengunarinnar, en einnig er logn á svæðinu og mikill raki samkvæmt frétt BBC. Eftir þrjá áratugi af mikilli iðnvæðingu teljast borgir í Kína einhverjar af þeim skítugustu.

Eins og sjá má á meðfylgjandi myndbandi er skyggni lítið sem ekkert og íbúar borgarinnar ganga um götur hennar með grímur af ýmsum toga. Íbúi sem AP fréttaveitan ræddi við segir daginn í dag vera þann versta á árinu. Liu Feifie segist óttast um heilsu barns síns.

Yfirvöld í Kína hafa fjárfest töluvert í svokallaðri hreinni orku á undanförnum árum. Þrátt fyrir það verður meira um 60 prósent orku í Kína til við brennslu kola.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×