Innlent

Skólastjóri segir gjöf Gídeons ekki trúboð

sveinn arnarsson skrifar
Verklagsreglur um heimsóknir trúar- og lífsskoðunarhópa voru samþykktar eftir fyrirspurn móður barns í 5. bekk.
Verklagsreglur um heimsóknir trúar- og lífsskoðunarhópa voru samþykktar eftir fyrirspurn móður barns í 5. bekk. fréttablaðið/gva
Óánægju gætir með heimsókn Gídeonfélagsins í Stóru-Vogaskóla á Vatnsleysuströnd þar sem félagið afhenti börnum í 5. bekk Nýja Testamentið að gjöf. Foreldrar barnanna voru ekki látnir vita fyrir fram um heimsóknina. „Mistök sem skrifast á mig,“ segir Svava Bogadóttir, skólastjóri Stóru-Vogaskóla.

Ingibjörg Axelsdóttir, foreldri barns í 5. bekk skólans, undrast að hafa ekki verið látin vita að til stæði að félagið afhenti börnum trúarrit kristinna manna. „Ég hefði viljað vita að þetta stæði til því þá hefði ég getað rætt við mitt barn um þetta. Þetta finnst mér vera trúboð og að mínu mati á trúboð ekki heima í grunnskólum landsins. Af því tilefni sendi ég póst á bæjaryfirvöld þar sem ég spurði út í verklagsreglur um svona heimsóknir og hvort ekki væri æskilegt að setja sér skýrar reglur,“ segir Ingibjörg.

Þann 29. apríl síðastliðinn var málið tekið fyrir á bæjarstjórnarfundi í Vogum. Var bréf Ingibjargar lagt fram sem og nýjar verklagsreglur grunnskólans sem settar voru í kjölfar athugasemdar foreldra. Verklagsreglur voru samþykktar á þeim bæjarstjórnarfundi.

SVava Bogadóttir Skólastjóri Stóru-Vogaskóla.
Svava Bogadóttir, skólastjóri Stóru-Vogaskóla, segir ekki um trúboð að ræða þegar kristnir trúarhópar útdeila trúarritum kristinna manna til grunnskólabarna.

„Þessari heimsókn var þannig háttað að Gídeonfélagið kom og afhenti eingöngu þeim börnum sem vildu Nýja Testamentið. Við teljum ekki um trúboð að ræða. Í kjölfar heimsóknarinnar ákváðum við að setja okkur verklagsreglur um heimsóknir trúar- og lífsskoðunarfélaga. Eftirleiðis verða engin trúarrit afhent fyrr en að loknum skóladegi. Einnig verða foreldrar hafðir með í ráðum,“ segir Svava.

Ingibjörg segir verklagsreglur bæjarins þurfa að vera í ætt við þær sem tíðkast í Reykjavík. „Það er mín skoðun að trúarfélög eigi ekkert að vera í grunnskólum landsins,“ segir Ingibjörg.

Svava segir það hafa verið mistök að láta foreldra ekki vita af því að félagið ætlaði sér að útdeila Nýja Testamentinu til barna í skólanum. „Að sjálfsögðu hefði það verið æskilegra að hafa samband við foreldra.

Við tökum athugasemdina fegins hendi og skerpum á vinnureglum hvað þetta varðar. Það eru mistök að láta ekki foreldra vita og skrifast þau mistök á mig,“ segir Svava.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×