Innlent

Skólastjóri harmar líkamsárásina: Gengu í stofur í Austurbæjarskóla og ræddu við nemendur

Birgir Örn Steinarsson skrifar
Nemendurnir sem um ræðir eru allir í Austurbæjarskóla.
Nemendurnir sem um ræðir eru allir í Austurbæjarskóla. Vísir/Vilhelm
Skólayfirvöld í Austurbæjarskóla sendu í dag skilaboð á foreldra barna í skólanum. Þar er um að ræða skilaboð frá Kristínu Jóhannesdóttur skólastjóra sem fundaði í morgun um líkamsárás sem stúlka í skólanum lenti í fyrir utan Langholtsskóla á þriðjudag en gerendur eru einnig nemendur í Austurbæjarskóla. Á fundinn mættu fulltrúar skóla- og frístundasviðs, ráðgjafi foreldra og fleiri sem málinu tengjast.

Myndband af árásinni rataði á samfélagsmiðla og þaðan í fjölmiðla en RÚV sýndi það í fréttatíma sínum í gær. Stúlkan sem varð fyrir barsmíðunum segist vera þolandi grófst eineltis í Austurbæjarskóla í margar vikur.

Þetta eru fyrstu viðbrögð sem berast úr Austurbæjarskóla en foreldrar höfðu kvartað yfir því að hafa ekki fengið nein svör í málinu.

Skólastjórnendur gengu í stofur í dag

Í tilkynningunni kemur meðal annars fram að skólavöld harmi atvikið og nú sé verið að vinna úr því með öllum sem málinu tengjast, með hag barnanna að leiðarljósi. Í dag gengu skólastjórnendur inn í kennslustofur allra 5.-10. bekkja og ræddu málið við nemendur. Þar var tekið fram að einelti og ofbeldi yrði ekki liðið af hálfu nemenda og að þegar dæmi um slíkt kæmi upp væri farið eftir reglum skólans sem og verklagsreglum skóla- og frístundasviðs.

Einnig töluðu umsjónakennarar 1.-4. bekks við nemendur sína um einelti og ofbeldi. Lögð var áhersla að huga að samlíðan og nemendur hvattir til þess að dæma ekki sjálfir í málum sem þessum þar sem það væri verkefni skólayfirvalda.

Foreldrar eru hvattir til þess að vera í sambandi við skólayfirvöld sem og sálfræðinga hjá Þjónustumiðstöð Miðborgar og Hlíða vegna málsins.

Tilkynningu skólastjórans má lesa í heild sinni hér fyrir neðan;

Skólasamtök Austurbæjarskóla harmar það atvik sem átti sér stað sl. Þriðjudag og greint var frá í fjölmiðlum í gær. Hugurinn er hjá þolanda og fjölskyldu hans en einnig hjá öðrum börnum og fjölskyldum sem málinu tengjast. Skólinn mun vinna náið með öllum þeim sem vinna að úrlausn málsins og veita þann stuðning sem á þarf að halda.

Í morgun hef ég fundað með yfirmönnum skóla- og frístundasviðs, ráðgjafa foreldra og skóla og fulltrúum frá þjónustumiðstöð þar sem farið var yfir málsatvik og verklag skólans. Unnið verður áfram með foreldrum og sérfræðingum að úrlausn málsins með hag barnanna að leiðarljósi.

Skólastjórnendur hafa gengið í bekki í 5. – 10. bekk og rætt við nemendur.

Umsjónakennarar nemenda í 1.-4. bekk hafa eftir atvikum rætt við sína nemendur. Rætt var um að í skólanum líðum við ekki einelti né annað ofbeldi og bregðumst alltaf við ef slíkt kemur upp skv. reglum skólans og verklagsreglum skóla- og frístundasviðs. Lögð var áhersla á að það væri ekki nemenda að dæma í atvikum sem þessum heldur væri það okkar að huga að samlíðan og byggja upp jákvæð samskipti og góðan skólaanda.

Öll þurfum við að vera vakandi yfir líðan barnanna sem þau tjá gjarnan með ólíkum hætti. Við hvetjum því foreldra til að vera í sambandi við okkur og sálfræðinga á Þjónustumiðstöð Miðborgar og Hlíða sem eru tilbúnir að styðja við nemendur okkar.

Kristín Jóhannesdóttir skólastjóri.   


Tengdar fréttir

Foreldrar fá engin svör í eineltismáli

Foreldrar stúlku sem lenti í líkamsárás af hendi jafnaldra sinna fyrir utan Langholtsskóla á þriðjudagskvöld hafa ekki fengið nein svör um hver viðbrögð skólans verða við einelti sem stúlkan hafi orðið fyrir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×