Innlent

Skoði möguleika á kynferðisbrotalínu

Sunna Valgerðardóttir skrifar
Vakin var athygli þingmanna á þeim möguleika að opna hjálparlínu fyrir þolendur og aðstandendur þolenda kynferðisbrota, sem og mögulega gerendur. Fréttablaðið/Valli
Vakin var athygli þingmanna á þeim möguleika að opna hjálparlínu fyrir þolendur og aðstandendur þolenda kynferðisbrota, sem og mögulega gerendur. Fréttablaðið/Valli
Engin hjálparlína, hvorki í síma né á netinu, er starfrækt hér á landi fyrir þolendur kynferðisbrota. Fólk getur hringt í Neyðarlínuna í 112 eða í hjálparsíma Rauða krossins í síma 1717 og fengið þaðan samband við viðeigandi aðila.

Svala Ísfeld Ólafsdóttir, dósent við lagadeild Háskólans í Reykjavík, vakti athygli á málinu á fundi allsherjar- og menntamálanefndar á þriðjudag um viðbragðsáætlanir til að sporna við kynferðisbrotum gegn börnum. Flestir fundargestir tóku vel í tillögu Svölu, þá þingmenn sér í lagi, en Bragi Guðbrandsson benti á að hjálparlína fyrir börn hefði verið starfrækt undanfarin ár á vegum Barnaheilla og ekki gefist vel.

Svala telur slíka hjálparlínu fyrir þolendur, aðstandendur og mögulega gerendur kynferðisbrota mögulega geta hjálpað til við að koma kynferðisbrotamálum í eðlilegan farveg í kerfinu.

Hún bendir þá einnig sérstaklega á slíka línu fyrir gerendur sem finna fyrir hvötum sem þeir hafa áhyggjur af. Í 7. grein Evrópuráðssamningsins sé mælt fyrir um aðgang þeirra sem óttast að fremja brot af þessu tagi að aðstoð. Þó sé línan vissulega sér í lagi starfrækt fyrir þolendur og aðstandendur þeirra, en einnig fyrir aðra sem hafa grun um eða vita um aðstæður sem eru ekki í lagi og þurfa einhvern til að tala við og fá leiðsögn. Fólk sem ekki er tilbúið að snúa sér til yfirvalda, að minnsta kosti ekki á þessu stigi.

Guðrún Jónsdóttir, talskona Stígamóta, og Margrét Steinarsdóttir, framkvæmdastjóri Mannréttindaskrifstofu Íslands, tóku undir að hjálparlína sem þessi væri mikilvæg.

Margrét Júlía Rafnsdóttir, verkefnastjóri hjá Barnaheillum, segir Ísland einfaldlega of fámennt til að það borgi sig að halda úti slíkri línu. Það hafi að minnsta kosti verið raunin þegar hjálparlínan Heyrumst.is var starfrækt í þrjú ár á vegum samtakanna. Hún segir flest málin sem rötuðu inn á línuna hafa verið mál tengd vinum, kærustum eða skólanum. „Sem betur fer voru mjög fá mál sem þurfti að bregðast við. Okkar reynsla er að þessi erfiðu mál endi ekki í svona línum," segir hún. „Það kostaði of mikið að halda þessu úti miðað við aðsóknina."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×