Innlent

Skoðar sérstaklega hitamál líðandi stundar

Svavar Hávarðsson skrifar
Ríkisendurskoðandi hyggst meðal annars skoða flutning ríkisstofnana sem nú er í deiglunni.
Ríkisendurskoðandi hyggst meðal annars skoða flutning ríkisstofnana sem nú er í deiglunni. fréttablaðið/valli
Ríkisendurskoðun mun sérstaklega taka fyrir nokkur málefni sem hafa verið hitamál í opinberri umræðu hérlendis á undanförnum mánuðum og vinna stjórnsýsluúttektir er þau varða á næsta ári.

Ríkisendurskoðun birti í gær áætlun um stjórnsýsluúttektir ársins 2015, en þar eru sérstaklega listuð upp 13 fyrirhuguð verkefni.

Sveinn Arason
Við fyrirspurn Fréttablaðsins segir Sveinn Arason ríkisendurskoðandi að verkefnaval stjórnsýslusviðs sé meðal annars byggt á áhættumati, eða að reynt sé að meta hvar mest hætta er á að starfsemi ríkisins sé ekki eins hagkvæm, skilvirk og árangursrík og hún gæti verið. Þetta mat fari fram þriðja hvert ár. „Jafnframt er lögð áhersla á að taka á þeim málum sem ofarlega eru á baugi í samfélagsumræðunni hverju sinni og tengjast opinberri stefnumótun, hagkvæmni, skilvirkni og árangri í ríkisrekstri.

Þessi þáttur í starfseminni flokkast undir svokallað samtímaeftirlit. Dæmi um þetta eru m.a. úttektir á málefnum útlendinga/innflytjenda, stöðu barnaverndarmála og flutningi ríkisstofnana,“ segir Sveinn við spurningunni hvort hitamál líðandi stundar hafi áhrif á verkefnavalið.

Stjórnsýslusvið Ríkisendurskoðunar lauk samtals 30 opinberum skýrslum árið 2014 sem er metfjöldi á einu ári. Í þessum skýrslum eru settar fram fjölmargar ábendingar til stjórnvalda og stofnana um úrbætur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×