Innlent

Skoðar 15 blóðdropa vegna morðs á Egilsstöðum

Snærós Sindradóttir skrifar
Rannsóknin fór meðal annars fram á svölum íbúðarinnar. Í beiðni verjanda Friðriks kemur fram að þar hafi greinilega mátt sjá fingraför í blóðslettum.
Rannsóknin fór meðal annars fram á svölum íbúðarinnar. Í beiðni verjanda Friðriks kemur fram að þar hafi greinilega mátt sjá fingraför í blóðslettum. VÍSIR/Gunnar Gunnarsson
Hæstiréttur hefur ákveðið að kalla eigi til matsmenn til að kanna betur blóðferla í máli gegn Friðriki Brynjari Friðrikssyni en hann var dæmdur í Héraðsdómi Austurlands fyrir að verða Karli Jónssyni að bana á Egilsstöðum í maí á síðasta ári. Málinu var áfrýjað til Hæstaréttar.

Verjandi Friðriks, Sveinn Andri Sveinsson, óskaði eftir því að matsmaður myndi yfirfara blóðferlarannsóknir og aðrar rannsóknir sem gerðar voru á vettvangi glæpsins betur og segir að rannsóknin hafi ekki verið með fullnægjandi hætti.

Í beiðni Sveins Andra kemur meðal annars fram að við rannsókn málsins hafi engin ályktun verið dregin af fimmtán blóðdropum sem fundust í anddyri íbúðar Karls. Fram hafi komið í skýrslu lögreglu að íbúðin hafi ekki borið nein ummerki um átök þrátt fyrir að óútskýrt blóð hafi fundist í anddyrinu.

Jafnframt segir að allir rannsakendur hafi verið sammála um að atlagan hefði átt að skilja eftir sig blóðbletti á geranda en engin ummerki hafi fundist á Friðriki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×