Innlent

Skoða upptöku samræmdra prófa á ný

Stefán Rafn Sigurbjörnsson skrifar
Ný tegund samræmdra prófa myndi vera frábrugðin þeim sem við þekkjum í dag.
Ný tegund samræmdra prófa myndi vera frábrugðin þeim sem við þekkjum í dag. Vísir/Gva
Illugi Gunnarsson
„Það er skiljanlegt að skólameistarinn skuli segja þetta því þetta er spegill að þeirri umræðu sem á sér stað á háskólastiginu,“ segir Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra um hugmyndir Inga Ólafssonar, skólameistara Verzlunarskóla Íslands, um að koma á inntökuprófum til að stemma stigu við einkunnaverðbólgu í grunnskólum landsins.

„Við höfum enga samræmda mælikvarða, eða þeir eru ekki að virka sem skyldi. Þá er eðlilegt að þeir sem eru að taka við nemendum af einu skólastigi og upp á næsta hafi áhyggjur,“ segir Illugi.

Menntamálastofnun er að rannsaka niðurstöður samræmdra prófa og bera saman við skólaeinkunn til að kanna hvort einkunnaverðbólga eigi sér stað.

Illugi fól Námsmatstofnun um áramótin að skoða fýsileika á að innleiða nýtt samræmt próf sem tekur á lykilhæfni sem nemendum er ætlað að læra samkvæmt aðalnámskrá. En Illugi tekur þó fram að slík próf megi ekki vera til þess fallin að steypa alla nemendur í sama mót.

„Við viljum ekki að grunnskólinn þróist þannig að það verði öll áhersla lögð á einhver þrjú fög, það er að segja að samræmd fagapróf verði allsráðandi í kerfinu. Þess vegna erum við að horfa til samræmdra prófa sem byggja á lykilþáttum í námskránni en um leið þarf að tryggja að krakkarnir hafi vald á þeim fögum sem við vitum að eru mikilvæg í framhaldsskólanum, til dæmis stærðfræði, ensku og íslensku.“

Illugi segir að áframhaldandi vinna muni taka nokkurn tíma en vonast til að fólk geti séð tillögugerð innan nokkurra mánaða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×