Erlent

Skoða hundruð flugvéla eftir óhugnanlegt flugslys

Kjartan Kjartansson skrifar
Brot úr hreyflinum brutu glugga þegar hann sprakk. Kona sogaðist næstum því út um gatið. Hún lést af meiðslum sínum.
Brot úr hreyflinum brutu glugga þegar hann sprakk. Kona sogaðist næstum því út um gatið. Hún lést af meiðslum sínum. Vísir/AFP
Bandarísk flugmálayfirvöld hafa fyrirskipað skoðun á hreyflum að minnsta kosti 220 flugvéla í kjölfar banaslyss um borð í farþegaflugvél þar sem hreyfill sprakk í vikunni. Kona lést eftir að hún sogaðist næstum út um glugga sem brotnaði af völdum braks úr hreyflinum.

Blöð CFM56-7B-hreyfla eins og þess sem sprakk verða skoðuð með ómsjá innan sex mánaða samkvæmt tilskipun Flugmálastofnunar Bandaríkjanna (FAA), að sögn Reuters-fréttastofunnar. Skoðunin nær til hreyfla sem notaðir hafa verið í tilteknum fjölda flugtaka. Aðrir hreyflar sömu tegundar verða skoðaðir á næstu átján mánuðunum.

Talið er að blað hafi gefið sig vegna málmþreytu og valdið sprengingunni í hreyfli vélar bandaríska flugfélagsins Southwest Airlines á þriðjudag.

Flugfélagið staðfesti í dag að það hefði sent farþegum um borð í vélinni fimm þúsund dollara ávísanir, jafnvirði rúmrar hálfra milljónar íslenskra króna. Þá hefðu þeir fengið inneign í flug hjá félaginu að andvirði þúsund dollara, um hundrað þúsund íslenskra króna.

Alls voru 149 farþegar um borð í vélinni sem var á leið frá New York til Dallas. Vélinni var nauðlent í Pennsylvaníu eftir að hreyfillinn sprakk aðeins um tuttugu mínútum eftir flugtak. Dánardómstjóri sagði að konan hefði látist af miklum höggáverkum á höfði, hálsi og búk. Þetta var fyrsta banaslysið í farþegaflugi í Bandaríkjunum í níu ár.


Tengdar fréttir

Einn lést þegar þotuhreyfill sprakk

Fréttir hafa verið um að kona hafi næstum því sogast út úr vélinni, en ekki liggur fyrir hvort að hún sé farþeginn sem lét lífið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×