Innlent

Skoða gögn úr tölvu Arturs Jarmoszko í von um að vísbendingar finnist

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Björgunarsveitarmenn gengu fjörur í gær.
Björgunarsveitarmenn gengu fjörur í gær. vísir/vilhelm
Leit að Artur Jarmoszko verður fram haldið í dag. Tuttugu björgunarsveitarmenn auk Landhelgisgæslunnar leituðu í gær að Arturi á landi, úr lofti og á sjó en án árangurs.

„Það verður metið út frá tölvugögnum hve fjölmenn leitin verður,“ segir Guðmundur Páll Jónsson hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Lögreglumenn hafa fengið aðgang að gögnum úr tölvu Arturs og kanna hvort einhverjar vísbendingar sé þar að finna. „Við munum einnig skoða fleiri myndavélar. Það verður tekin ákvörðun um þetta snemma í dag.“

Í gær var leitað í fjörunni við Fossvog og á stóru svæði í Kópavogi. Arturs hefur verið saknað frá síðustu mánaðamótum en vitað er að hann fór í bíó í Laugarásbíó kvöldið sem hann týndist, síðan niður í miðbæ Reykjavíkur þar sem hann sést taka út fé úr hraðbanka og að lokum nettengdist sími hans í Kópavogi síðla kvölds. Síðan hefur ekkert til hans spurst.

„Við höfum látið fólk í Póllandi vita og komið ábendingum til fleiri Evrópulanda,“ segir Elwira Landowska en þau Artur eru syst­kinabörn. „Það eina sem við höfum heyrt er á hvaða svæði hefur verið leitað síðustu daga.“

Málið er rannsakað sem mannshvarf. Nánast útilokað er talið að Artur Jarmoszko hafi farið af landi brott með hefðbundnum leiðum. 

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu.


Tengdar fréttir

Nýta lágfjöru til leitar að Arturi

Leit að Arturi Jarmoszko, 25 ára karlmanni frá Póllandi, mun hefjast að nýju í hádeginu í dag. Leitað verður á sama svæði og í gær.

Lögreglan lýsir enn eftir Artur

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu lýsir enn eftir Artur Jarmoszko, 26 ára karlmanni frá Póllandi, sem lýst var eftir fyrst í gærkvöldi.

Artur fór í bíó kvöldið sem hann hvarf

Leit að Arturi Jarmoszko, 25 ára pólskum karlmanni sem ekkert hefur spurst til í tvær vikur, hefur enn engan árangur borið en um tuttugu björgunarsveitarmenn leituðu hans í dag. Lögregla hefur fengið þónokkrar ábendingar frá almenningi undanfarinn sólarhring og fjölskylda Arturs hefur látið pólsk lögregluyfirvöld vita af hvarfi hans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×