Innlent

Skoða ábendingar frá OECD

svavar hávarðsson skrifar
Ísland verður að leita jafnvægis milli vaxtar orkugeirans og ferðaþjónustu og umhverfisverndar.
Ísland verður að leita jafnvægis milli vaxtar orkugeirans og ferðaþjónustu og umhverfisverndar. fréttablaðið/gva
Sigrún Magnúsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra, hefur skipað starfshóp til að yfirfara og meta ráðleggingar sem fram koma í nýlegri heildarúttekt Efnahags- og framfarastofnunarinnar, OECD, á stöðu og þróun umhverfismála á Íslandi 2001-2013.

Skýrslan er yfirgripsmikil úttekt á framkvæmd umhverfismála á Íslandi og eru þar settar fram margar ábendingar og ráðleggingar til íslenskra stjórnvalda, sem snúa m.a. að löggjöf, innviðum, hagrænum stjórntækjum og fleiri grunnþáttum varðandi framþróun málaflokksins.

Starfshópurinn mun skoða þessar ráðleggingar OECD með tilliti til framkvæmdar og eftirfylgni.

Meðal þess sem skýrslan tekur til, til hliðar við þá skoðun að heilt yfir sé staðan í umhverfismálum jákvæð hér á landi, er að fyrirsjáanlegur sé ágreiningur vegna ólíkra hagsmuna um landnýtingu á milli þeirra sem vilja annars vegar nýta náttúruna til orkuframleiðslu og hins vegar þeirra sem vilja auka náttúrutengda ferðaþjónustu.

Eins var það álit OECD að sívaxandi ferðamannastraumur auki álag á viðkvæma náttúru til muna. Iðnaður í landinu er einsleitur og reiðir sig verulega á ódýra, hreina orku vegna þess hversu orkufrekur hann er.

Þetta eru helstu áskoranir sem Ísland glímir við, eða mun takast á við á næstu árum. Þessu til viðbótar er landeyðing vandamál en hún er knúin áfram af styrkjakerfi í landbúnaði, sem þarfnast endurskoðunar, kom fram þegar skýrslan var kynnt í september í fyrra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×