Viðskipti innlent

Skjárinn greiddi 277 milljónir króna fyrir EM 2016

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Strákarnir okkar hafa unnið þrjá af fjórum leikjum sínum í undankeppni EM 2016.
Strákarnir okkar hafa unnið þrjá af fjórum leikjum sínum í undankeppni EM 2016. Vísir/Andri Marinó
Skjárinn greiddi 1,8 milljónir evra eða jafnvirði 277 milljóna íslenskra króna fyrir sjónvarpsréttinn að Evrópumóti karlalandsliða í knattspyrnu sumarið 2016. Þetta verður í fyrsta skipti sem lokakeppni EM verður sýnd á áskriftarstöð en einhverjir anda kannski léttar að 23 leikir af 51 leik keppninnar verða í opinni dagskrá.

Opnunarleikur mótsins verður þann 10. júní þegar gestgjafarnir, Frakkar, mæta öðru liði úr A-riðli. Riðlakeppnin stendur til 22. júní en samkvæmt skilyrðum sem Evrópska knattspyrnusambandið setur (UEFA) þarf einn leikur á hverjum degi keppninnar að vera í opinni dagskrá. Því verða allir leikir frá og með átta liða úrslitum í opinni dagskrá á Skjánum auk eins leiks á dag í riðlakeppninni og sextán liða úrslitum. Skjárinn hefur gefið út að leikir íslenska landsliðsins, nái það markmiðum sínum og komist í fyrsta skipti í lokakeppni stórmóts, verði í opinni dagskrá.

Ekki náðist í Friðrik Friðriksson, framkvæmdastjóra Skjásins, við vinnslu fréttarinnar.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×