Innlent

Skjálftavirkni í Amsterdam

Hrund Þórsdóttir og Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Í meira en áratug var Víðir Reynisson í aðalhlutverki hjá Almannavörnum í tengslum við vár á borð við eldgos og jarðskjálfta, en nú er hann í allt öðru hlutverki með landsliðinu í Amsterdam.

Þegar gosið í Eyjafjallajökli gekk yfir var Víðir fastagestur á skjáum landsmanna til að útskýra hættuna og hvernig ætti að bregðast við henni. Sama var uppi á teningnum á meðan gosið í Holuhrauni stóð yfir en nú glímir Víðir við verkefni af allt öðrum toga.

"Ég er að vinna fyrir KSÍ varðandi öryggismál liðsins og tengingar við yfirvöld vegna áhorfendanna. Við erum með 3000 íslenska stuðningsmenn hérna og mitt hlutverk er meðal annars að tryggja að þeir komist á völlinn og skemmti sér vel meðan á leiknum stendur,” sagði Víðir, þegar rætt var við hann fyrir landsleikinn gegn Hollendingum í kvöld.

Víðir hafði engar áhyggjur af því að íslensku stuðningsmennirnir yrðu til vandræða.

“Það eina sem ég hef áhyggjur af er að Hollendingarnir muni eiga erfitt með að yfirgnæfa þá,” sagði hann, enda hefur stemmningin meðal Íslendinganna verið afar góð.

Skjálftahætta er ávallt yfirvofandi á Íslandi en síður í Hollandi, en Víðir sagði þó skjálfta í Hollendingum vegna hinna hressu Íslendinga.

Hann segir forréttindi að fá að vera í kringum landsliðið. “Þetta eru glæsilegir ungir men sem eru að fara að mæta hér á grasið,” sagði hann að lokum, frá Amsterdam Arena vellinum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×