Lífið

Skírðu kindina Pirrulínu

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
Hermann og Sandra Sif með heimilistíkina Ösku á milli sín.
Hermann og Sandra Sif með heimilistíkina Ösku á milli sín. Vísir/Hulda
Sandra Sif, átta ára, og Hermann, fimm ára, eru fjörugir krakkar sem rétt mega vera að því að stilla sér upp fyrir ljósmyndara Fréttablaðsins.

Hermann er að koma úr kvikmyndatöku og Sandra Sif er að fara á vorhátíð í skólanum. En bæði eru nýlega komin úr ferðalagi með foreldrum sínum austur í Öræfi, sem er sveit við rætur Vatnajökuls.

Skyldu þau fara oft upp í sveit? Sandra: Já, við förum stundum í Öræfin, að Hofi og Hnappavöllum.

Hermann: Við fórum núna og kíktum á sauðburðinn.

Hjálpuðuð þið til við búskapinn? Sandra: Já, ég fékk að hjálpa til að gefa kindunum hey í fjárhúsinu hjá Adda bónda. Ég fékk líka að fylgjast með ánum bera. Svo hjálpaði ég líka við að smala lambánum sem voru úti á túni í gott skjól fyrir ofan hlöðu áður en nóttin kom.

Hermann: Það var ein kind sem var að reyna að stanga mig og passa lambið sitt. Við skírðum hana Pirrulínu, af því hún var svo pirruð á okkur og vildi ekki hafa okkur nálægt sér.

Lentuð þið í fleiri ævintýrum? Sandra Sif: Við fórum með pabba að veiða silung. Það var mjög skemmtilegt. Svo fór ég með mömmu og ömmu í fjallgöngu upp að einum helli sem heitir Hrognhellir.

 

Hermann: Við fórum líka að leita að skúmseggjum og ég fann eitt egg en enginn annar í fjölskyldunni minni fann egg. Ég veiddi líka tvo silunga með pabba mínum.

 

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 28. maí 2016.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×