Sport

Skírði sigurmark tvíburasystur sinnar eftir lagi Britney Spears

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jocelyne og Monique Lamoureux fagna saman með gullið um hálsinn.
Jocelyne og Monique Lamoureux fagna saman með gullið um hálsinn. Vísir/Getty
Tvíburasysturnar Jocelyne og Monique Lamoureux voru konurnar á bak við langþráðan sigur bandaríska íshokkílandsliðsins á Ólympíuleikunum en Bandaríkin unnu gull á ÓL í PyeongChang í morgun.

Bandaríska liðið var búið að tapa úrslitaleiknum á tveimur Ólympíuleikjum í röð og hafði ekki náð að vinna gullið eftirsótta í tuttugu ár.

Bandaríska liðið vann hinsvegar 3-2 sigur á Kanada í úrslitaleiknum en leikurinn fór alla leið í bráðabana í vítakeppni.





Monique Lamoureux skoraði annað marka bandaríska liðsins í leiknum sjálfum en það var tvíburasystir hennar Jocelyne sem tryggði sigurinn í bráðabananum með mögnuðu marki.

Tvíburasysturnar Jocelyne og Monique Lamoureux voru teknar í viðtal hjá NBC eftir leikinn og þar var Monique Lamoureux búin að finna nafn á sigurmark systur sinnar.

Hún kallaði það „Oops!... I Did It Again“ eftir einu frægasta lagi söngkonunnar Britney Spears en Jocelyne hafi nefnilega skorað svipað mark í leik á móti rússneska liðinu fyrr í keppninni.





Tvíburasysturnar eru fæddar árið 1989 og voru því ellefu ára þegar Britney Spears sló í gegn með laginu „Oops!... I Did It Again“ árið 2000.

Jocelyne og Monique Lamoureux voru báðar í silfurliðum Bandaríkjanna á síðustu tveimur Ólympíuleikum í Vancouver og Sotsjí og voru því búnar að bíða lengi eftir að fá loksins gullið um hálsinn.  Þær hafa aftur á móti unnið sex heimsmeistaratitla saman.







Þær töluðu líka um að hafa unnið markvisst að því að bæta sig í vítakeppni en Jocelyne viðurkenndi að hún hafi litið út eins og algjör fífl í síðustu vítakeppni á móti Kanada eins og sjá má hér fyrir ofan.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×