Erlent

Skipulagði hryðjuverk í París

Stefán Rafn skrifar
Lögreglan í París Maðurinn var handtekinn í stúdentaíbúðum. 
Fréttablaðið/AfP
Lögreglan í París Maðurinn var handtekinn í stúdentaíbúðum. Fréttablaðið/AfP
Frakkland Lögreglumenn í París hafa handtekið 24 ára mann sem grunaður er um að skipuleggja hryðjuverk í París. Bernard Cazeneuve, innanríkisráðherra Frakklands, greindi frá þessu í gær.

Maðurinn, Sid Ahmed Ghlam, var handtekinn í stúdentaíbúð í París eftir að hann hafði óvart skotið sjálfan sig og hringt á sjúkrabíl. Hann hefur einnig verið tekinn í yfirheyrslu vegna morðs á konu sem fannst látin síðastliðinn sunnudag. Konan, Aurelie Chatelain, var í heimsókn í París yfir helgina en hún fannst látin í bíl í úthverfi Parísar.

Á vettvangi fann lögregla nokkuð magn vopna og skothelt vesti auk áætlana þar sem hugsanleg skotmörk, nokkrar kirkjur í París, voru útlistuð. Þar voru einnig upplýsingar um tengilið mannsins í Íslamska ríkinu sem hafði ráðlagt honum að ráðast á kirkjur. Þá hefur leyniþjónustan í Frakklandi upplýsingar um að Ghlam hafi haft áhuga á að ferðast til Sýrlands til að berjast með íslömskum vígamönnum en hundruð Frakka hafa ferðast til Mið-Austurlanda til að berjast með Íslamska ríkinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×