Innlent

Skiptir ríkið ekki máli hver á Icesavekröfurnar

Heimir Már Pétursson skrifar
Bjarni Beneditksson segir sölu Hollendinga á Icesavekröfum þeirra sýna að endurheimtur úr þrotabúi Landsbankans verði góðar. Innistæðutryggingasjóður gæti þurrkast upp.
Bjarni Beneditksson segir sölu Hollendinga á Icesavekröfum þeirra sýna að endurheimtur úr þrotabúi Landsbankans verði góðar. Innistæðutryggingasjóður gæti þurrkast upp. vísir/vilhelm
Fjármálaráðherra segir í sjálfu sér ekki skipta máli hverjir eigi kröfurnar á þrotabú Landsbankans vegna Icesave. Sala Hollendinga á þeirra kröfum sýni að þrotabúið muni að fullu endurgreiða forgangskröfur í búið.

Bjarni Benediktsson segir þessa sölu staðfesti það sem íslensk stjórnvöld hafi sagt við bresk og hollensk stjórnvöld og aðra forgangskröfuhafa að menn myndu fá í fyllingu tímans fullar endurheimtur. Bjarni segist ekki geta staðfest fullyrðingar Hollendinga um að Icesave kröfurnar verði ekki að fullu bættar fyrr en árið 2018.

„Nei, ég get ekki staðfest neitt um það. Það er á endanum blanda af ákvörðunum slitabúsins sjálfs um útgreiðslu og síðan möguleikum á því að fá undanþágur frá Seðlabankanum fyrir afhendingu til kröfuhafa,“ segir Bjarni.

En þarna vísar fjármálaráðherra til gjaldeyrishaftana. Það skipti forgangskröfuhafa máli hvernig gangi að afnema gjaldeyrishöftin.

„Og ekki hægt að slá neinu föstu um það í dag hvenær útgreiðslur geta átt sér stað. Það er verið að vinna að þeim málum þessa dagana og vikurnar mjög hörðum höndum. Mér finnst líka líklegt að það hafi haft þýðingu þegar dómur féll í fyrra sem gerir það að verkum að styrking krónunnar eykur endurheimtur fyrir forgangskröfuhafana,“ segir fjármálaráðherra.

Talið er að kröfurnar séu nú komnar í eigu vogunarsjóða, eða hrægammasjóða eins og þeir eru stundum kallaðir. Bjarni segir mikilvægt að gera sér grein fyrir að íslenska ríkið sé ekki skuldari af þessum kröfum.

„Það eru slitabúin. Eina aðkoma ríkisins eða stjórnvalda að uppgjörinu í þessum málum eru á þessu stigi málsins um Seðlabankann og það tengist gjaldeyrishöftunum. Það skiptir í sjálfu sér ekki máli fyrir íslensk stjórnvöld hver er kröfuhafinn í slitabú þegar stjórnvöld eru ekki skuldarinn,“ segir Bjarni.

Bjarni segir kröfur hollenskra stjórnvalda um vexti á lán þeirra fyrir Icesavekröfunum vera óheyrilegar. En tekist er á um þær kröfur fyrir dómstólum. Hvernig sem þau mál fara, er það íslenski innistæðutryggingasjóðurinn sem verður krafinn greiðslu en ekki ríkissjóður. Nú eru um 20 milljarðar króna í innistæðutryggingasjóðnum.

Þannig að sjóðurinn gæti mögulega þurrkast upp ef þeir vinna málið?

„Ekki að fullu eins og ég hef skilið málið en að verulegu leyti. Sjóðurinn hefur svosem þegar boðist til að greiða að verulegu leyti það sem í honum er til kröfuhafanna. En það hefur verið ágreiningur um útfærslu á uppgjörinu,“ segir Bjarni Beneditksson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×