Viðskipti innlent

Skipti greiða 400 milljónir í sekt

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Brynjólfur Bjarnason er forstjóri Skipta. Mynd/ Anton.
Brynjólfur Bjarnason er forstjóri Skipta. Mynd/ Anton.
Skipti, sem meðal annars rekur Símann og Tæknivörur, hefur fallist á að greiða 400 milljónir í stjórnvaldssekt vegna brota á samkeppnislögum. Þá hafa Skipti fallist á að selja allan eignarhlut sinn í Tæknivörum og skuldbundið sig til að grípa ekki til aðgerða sem raskað geta samkeppni á farsímamarkaði.

Í tilkynningu frá Samkeppniseftirlitinu kemur fram að 21. apríl síðastliðinn hafi verið gerð húsleit hjá Skiptum hf. og dótturfélögum þess, Símanum hf. og Tæknivörum ehf. Á grundvelli gagna sem fundust í þeirri leit hafi verið gerð leit hjá Hátækni ehf. og móðurfélagi þess, Olíuverslun Íslands hf., þann 7. maí. Þetta hafi veirð gert vegna gruns um ólögmætt samráð milli Hátækni og Tæknivara á heildsölumarkaði fyrir sölu á farsímum.

Eftir húsleitirnar hafi Skipti og Tæknivörur snúið sér til Samkeppniseftirlitsins og óskað, með vísan til samkeppnislaga, eftir því að veita liðsinni við að upplýsa málið. Á þeim grundvelli hafi Samkeppniseftirlitið nýtt heimild samkeppnislaga og gert sátt við Skiptasamstæðuna.

Hátækni og Tæknivörur eru helstu keppinautar í innflutningi og heildsölu á farsímum og tengdum búnaði. Hátækni er umboðsaðili fyrir m.a. Nokia síma og Tæknivörur fyrir m.a. Sony Ericsson síma.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×