Erlent

Skipstjórinn handtekinn og sakaður um morð

Samúel Karl Ólason skrifar
Aðeins tókst að bjarga 27 manns.
Aðeins tókst að bjarga 27 manns. Vísir/EPA
Ítölsk yfirvöld segja að skipstjóri og einn áhafnarmeðlimur flóttamannabátsins sem sökk undan ströndum Líbýu á sunnudag hafi verið handteknir. Um 800 manns eru taldir hafa farist í slysinu og aðeins tókst að bjarga 27.

Þar á meðal voru mennirnir tveir og greindu flóttamennirnir sem komust lífs af yfirvöldum frá því að mennirnir væru ekki flóttamenn heldur fólkssmyglarar. Þeir voru handteknir seint í gærkvöldi þegar strandgæsluskipið sem bjargaði þeim kom til hafnar á Sikiley.

Skipstjórinn er sakaður um fjölda morða af gáleysi, samkvæmt frétt á vef BBC. Lögreglan rannsakar dauða fólksins sem morð.

Evrópusambandið tilkynnti um hertar aðgerðir á miðjarðarhafi í gær, gæsla verður stóraukin á svæðinu auk þess sem gerð verður gangskör í því að reyna að handsama þá sem standa að hinum stórtæku fólksflutningum yfir miðjarðarhafið.

Upprunalega var talið að um 700 manns hefðu látið lífið, en Carlotta Sami hjá Sameinuðu þjóðunum segir að eftir að rætt hafi verið við eftirlifendur hafi komið í ljós að talan væri hærri.

„Það voru um 800 manns um borð, þar á meðal tíu til tólf ára gömul börn.“ Hún sagði að flestir af flóttamönnunum hefðu komið frá Sýrlandi, Erítreu og Sómalíu. Þar að auki sagði hún að hundruð flóttamannanna hafi verið læst neðan þilja í skipinu þegar það sökk.

Hér má sjá útskýringu á helstu leiðum flóttafólks frá Afríku.Vísir/GraphicNews

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×