Erlent

Skipstjóri sökkvandi ferju kom sér snemma frá borði

Brjánn Jónasson skrifar
Ættingjar þeirra sem fórust með ferjunni og þeirra sem enn er saknað syrgja börn sín og ættingja.
Ættingjar þeirra sem fórust með ferjunni og þeirra sem enn er saknað syrgja börn sín og ættingja. Nordicphotos/AFP
Mögulegt er að fleiri af farþegum suður-kóreskrar farþegaferju sem hvolfdi á fimmtudagskvöld hefðu bjargast ef skipstjóri ferjunnar hefði gefið fyrirmæli um að yfirgefa skipið fyrr.

Lögregla og saksóknari hafa farið fram á það við dómstóla að fá að handtaka skipstjóra ferjunnar og tvo aðra skipverja.

Skipstjórinn var ekki í brú skipsins þrátt fyrir að siglt hafi verið á hafsvæði þar sem þess er krafist, lögum samkvæmt. Þá forðaði hann sér snemma frá borði í stað þess að stýra björgunaraðgerðum.

„Skipstjórinn forðaði sér frá borði á undan farþegunum,“ segir Yang Jung-jin, saksóknari sem fer með rannsókn málsins.

Rannsókn á ástæðum þess að ferjunni hvolfdi miðar lítið, en komið hefur í ljós að hún beygði skarpt rétt fyrir slysið. Ástæða þess að skipið beygði hefur ekki verið gefin upp.

Alls voru 476 um borð í ferjunni, flest börn á leið í skólaferðalag. Staðfest hefur verið að 174 komust af, 28 eru látnir og 274 er enn saknað. Einn þeirra sem komust lífs af, aðstoðarskólastjóri sem hafði umsjón með stórum hópi barna á ferjunni, stytti sér aldur í gær. Í sjálfsvígsbréfi hans kom fram að hann gæti ekki afborið að hafa lifað af þegar svo mörg börn í hans umsjá létust.

Kafarar leita nú að líkum um borð í skipinu en lélegt skyggni undir yfirborði sjávar torveldar leitina verulega.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×